Tíu látnir í mótmælum í Kólumbíu

11.09.2020 - 03:48
Mynd: EPA-EFE / EFE
Minnst tíu voru drepnir og hundruð særðir í óeirðum í Bogota, höfuðborg Kólumbíu, í gær. Óeirðirnar brutust út í mótmælum vegna manns sem lést eftir að lögregla skaut ítrekað á hann úr rafbyssu.

Mótmælur þustu út á götur höfuðborgarinnar á miðvikudag eftir að myndband birtist af lögmanninum Javier Ordonez biðja einkennisklædda lögreglumenn vægðar. Ráðist var að lögreglustöðvum og sumar lagðar í rúst í mótmælunum að sögn varnarmálaráðherrans Carlos Holmes Trujillo. Fleiri lögreglumenn verða sendir til höfuðborgarinnar til að kveða niður mótmælin að sögn ráðherrans. Mótmælin breiddu úr sér til borganna Medellin og Cali. 

Borgarstjóri gagnrýnir lögreglu

Claudia Lopez, borgarstjóri Bogota, sagði sagði flesta hinna látnu hafa dáið af völdum skotsára. Yfir 300 eru særðir eftir átök á milli mótmælenda og lögreglu, þar á meðal yfir hundrað lögreglumenn. Nærri sextíu hinna særðu hlutu skotsár. Lopez gagnrýndi lögreglu fyrir að beita skotvopnum á mótmælendur. „Hvers lags þjálfun fá þeir til þess að beita svona offorsi gegn mótmælum," hefur AFP fréttastofan eftir henni.

Forsetinn Ivan Duque lofaði því að mál Ordonez verði rannsakað í þaula. Hann vildi þó ekki smána lögregluna og segja hana fulla af morðingjum vegna aðgerða nokkurra lögreglumanna. Varnarmálaráðherrann Trujillo sagði á blaðamannafundi í gær að lögreglumennirnir sem urðu Ordonez að bana hafi allir verið leystir frá störfum á meðan málið er í rannsókn. Lögreglan segir Ordonez hafa verið ölvaðan og veist að lögreglumönnum. Á myndböndum af aðgerðum lögreglu heyrist Ordonez ítrekað biðja lögregluna vægðar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi