
Rannsaka hvort holræsakerfið á Hofsósi er olíumengað
Seint á síðasta ári uppgötvaðist gat á olíutanki við bensínstöð N1 á Hofsósi og að lekið hafði úr honum í langan tíma. Jarðvegurinn er mengaður af þessum sökum og íbúðarhús í nágrenni stöðvarinnar var dæmt óíbúðarhæft. N1 skipti um jarðveg við tankinn í sumar en ekki hefur verið metið að fullu hversu útbreidd mengunin er á Hofsósi.
„Sjáum okkur tilneydd til þess að fara í þessa athugun“
Byggðarráð Skagafjarðar hefur nú samið við verkfræðistofuna Eflu um að rannsaka hvort olía hafi borist í fráveitukerfið á Hofsósi. „Við sjáum okkur tilneydd til þess að fara í þessa athugun til þess að skoða hvort þetta hefur náð inn í holræsakerið hjá okkur eða ekki,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, forseti sveitarstjórnar Skagafjarðar. „Það eru svosem engar vísbendingar um að svo sé, en við viljum tryggja okkur með því að láta þessa skoðun fara fram.“
Verði að rannsaka hve útbreidd mengunin er
Stefán segir að rannsókn Eflu hefjist á allra næstu dögum, en auk þess hafi sveitarstjórnin óskað eftir því að Umhverfisstofnun rannsaki nákvæmlega hve útbreidd þessi olíumengun er í jarðvegi á Hofsósi. „Ég veit að þeir eru komnir með gögn frá N1 og eru að yfirfara þau gögn sem til eru og meta hvort þeir ætla að fara í úttekt eða ekki. Sveitarfélagið er svolítið að bíða eftir því hvað þeir gera. Að okkar mati er það algert lykilatriði að það verði farið og rannsakað með óyggjandi hætti hvað þetta er útbreitt, þetta mengunarslys sem þarna hefur átt sér stað.“