Næstu vikur verði notaðar til að meta ýmsar útfærslur

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, leggur til í minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra að stjórnvöld noti næstu vikur til að meta ýmsar útfærslur af skimunum á landamærunum. Þetta verði að skoðast í ljósi þróunar faraldursins hérlendis og erlendis og heildarhagsmuna landsins. Hann segir að ekki hafi tekist að fullu að komast fyrir aðra bylgju faraldursins því enn séu daglega að greinast smit á mismunandi stöðum á landinu.

Svandís Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, hefur ákveðið að fallast á tillögur Þórólfs um óbreytt fyrirkomulag á landamærunum til 6. október.  Hún kynnti minnisblað sóttvarnalæknis á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Í minnisblaðinu segir Þórólfur að hann telji enn að núverandi fyrirkomulag „lágmarki áhættuna á því að veiran berist inn í landið og dragi þannig mest úr líkum á faraldri innanlands.“ 

Hann telur ekki ráðlegt að taka upp heimkomusmitgát að nýju þar sem hún hafi verið mörgum torskilin og brögð hafi verið að því ekki var farið eftir fyrirmælum um smitgát. 

Þórólfur bendir jafnframt á að 20 prósent smita á landamærunum hafi einungis greinst í seinni sýnatöku. „Þannig hefði talsverður fjöldi smita borist inn í landið ef einungis einni skimun hefði verið beitt.“

Hann telur óvarlegt að breyta núverandi fyrirkomulagi þegar verið sé að draga úr ýmsum takmörkunum innanlands en ekki síður vegna þess að talsverður vöxtur sé í útbreiðslu farsóttarinnar í nálægum löndum.

Þá segir í minnisblaðinu að málið hafi verið rætt á fundi sóttvarnaráðs og það hafi lýst yfir stuðningi sínum við tillögurnar.

Ekkert smit greindist innanlands í gær og eru nú 49 í einangrun vegna innanlandssmita en 72 alls.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi