Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hefja leit að loðnu á mánudag

Mynd með færslu
Árni Friðriksson RE. Mynd: Smári Geirsson/svn.is
Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson heldur í loðnuleit á mánudaginn og stendur leiðangurinn yfir í 22 daga. Jafnframt tekur rannsóknarskip á vegum Grænlendinga þátt í leiðangrinum.

Leitað verður fyrir norðan og vestan land, en einnig langt norður með austurströnd Grænlands. Tilgangur leiðangursins er að meta stærð loðnustofnsins og veita endurskoðaða ráðgjöf um hámarksafla á komandi vertíð.

Engar loðnuveiðar hafa verið stundaðar síðustu tvær vertíðar og stofninn verið í lægð frá því að hlýna tók á Íslandsmiðum um síðustu aldarmót. 

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fundaði í gær með fulltrúum Hafrannsóknastofnunar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Kristján sagði að aldrei hefði verið lagður meiri kraftur í leit að loðnu en á undanförnum tveimur árum og mikilvægt væri að samstaða væri um fyrirkomulag leitarinnar.