Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Framkvæmdastjóri Rio Tinto hættir vegna hellasprenginga

11.09.2020 - 01:05
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Framkvæmdastjóri Rio Tinto og tveir hátt settir stjórnendur fyrirtækisins munu hætta störfum hjá fyrirtækinu vegna sprengingar sem lagði merkar fornminjar í Ástralíu í rúst. Fjárfestar fyrirtækisins hafa beitt stjórn fyrirtækisins miklum þrýstingi eftir að hellar í Juukan-gili í Pilbara í Ástralíu voru sprengdir. Hellarnir eru mikilvægir Puutu Kunti Kurrama og Pinikura þjóðunum, þar sem forfeður þeirra dvöldu þar fyrir um 46 þúsund árum.

Í yfirlýsingu Rio Tinto segir að framkvæmdastjórinn Jean-Sebastien Jacques hafi samþykkt að láta af störfum á næsta ári. Chris Salisbury, yfirmaður járngrýtisdeildar Rio Tinto, og Simone Niven, samskiptastjóri fyrirtæksins, munu einnig láta af störfum.

Fjárfestar fordæmdu linar aðgerðir stjórnarinnar

Vika er síðan fjárfestar fordæmdu hver af öðrum ákvörðun stjórnarinnar að svipta yfirmennina einungis skammtíma-bónusgreiðslum vegna sprengingarinnar. Þá sagði yfirmaður þingnefndar sem fór yfir málið að gögnin sem Rio Tinto færði henni hafi verið afvegaleiðandi.

Hellarnir í Juukan-gili voru sprengdir í maí til frekari járngrýtisnámugraftar, þrátt fyrir að fyrirtækið hafi vitað árum saman að reiturinn væri helgur í augum innfæddra Ástrala. Eftir mikla reiði í garð fyrirtækisins vegna sprengingarinnar var gerð innri rannsókn á ákvörðunartökunni. Hún leiddi til þess að yfirmennirnir voru sviptir bónusgreiðslum.

Vonar að eyðilegging menningarminja heyri sögunni til

Simon Thompson, stjórnarformaður Rio Tinto, segir atburðina í Juukan ranga. Hann segir fyrirtækið ákveðið í að eyðilegging svo merkra menningarminja heyri sögunni til hjá Rio Tinto. Fyrirtækið vilji afla sér trausts Puutu Kunti Kurrama og Pinikura þjóðanna og annarra þjóða sem fyrst byggðu Ástralíu. „Við höfum hlutstað á áhyggjur fjárfesta um að skortur á einstaklingsábyrgð grafi undan getu fyrirtækisins til þess að endurreisa traustið,“ segir Thompson.

Elstu minjar um beinaverkfæri í Ástralíu

Rio Tinto fékk leyfi til að sprengja fyrir námu á svæðinu árið 2013. Leiðtogar frumbyggjaþjóða mótmæltu hástöfum, enda hafði þeim ekki verið kynnt fyrirætlun fyrirtækisins fyrr en of seint var að koma í veg fyrir það. Ári eftir að leyfið fékkst var farið í umfangsmikinn fornleifauppgröft í Juukan. Þar komu í ljós verkfæri sem búin voru til úr kengúrubeinum fyrir 28 þúsund árum. Það eru elstu þekktu verkfæri úr beinum sem hafa fundist í Ástralíu. Eins fannst belti sem fléttað var úr hárum. DNA rannsókn á því sýndi tengsl þeirra sem áður bjuggu í hellunum við frumbyggja sem búa þar í dag.

Leiðrétt 08:38: Upphaflega var sagt að Jaques, Salisbury og Niven hefðu þegar látið af störfum. Hið rétta er að þau láta af störfum á næsta ári. Einnig var starfsheiti Niven leiðrétt.

Mynd með færslu
 Mynd: The Puutu Kunti Kurrama and Pini
Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV