Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fimm flugbeitt og fönkí fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Atlantic - Facebook

Fimm flugbeitt og fönkí fyrir helgina

11.09.2020 - 12:09

Höfundar

Pólítík, skilnaðartregi, tóbaksgulir fingur, uprisa holdsins og gestlistinn hans Ingó eru umfjöllunarefnin í fimmunni að þessu sinni, þar sem sumar af skærustu stjörnum popptónlistarinnar rífa okkur í gang.

Janelle Monáe - Turntables

Tónlistarkonan og leikkonan Janelle Monáe er ein af þeim allra virtustu í tónlistarlífinu vestanhafs og hefur fengið góða dóma og alls konar verðlaun sem undirstrika það. Síðasta plata hennar kom út árið 2018, en lagið Turntables er úr heimildarmyndinni All In: The Fight for Democracy og er fönkaður nýsálar-slagari með flugbeittum texta.


Calvin Harris x The Weeknd - Over Now

Það var ekki skrítið að internetið færi á hliðina þegar það var tilkynnt að skoski pródúserinn Calvin Harris og Kanadamaðurinn knái Weeknd væru að senda frá sér lag. Ástæðan er líklega að Harris hefur komið fleiri lögum á topp 10 í Bretlandi en Michael Jackson, og Weeknd var að slá met í flestum vikum á toppi útvarpspilunar í USA fyrir megahittið sitt Blinding Lights. Lagið Over Now er silkimjúkur R&B-súkkulaðimoli þar sem Weeknd kveður enn eina kærustuna á tregafullan hátt.


Yellow Days ft. Mac Demarco - The Curse

Áfram með tregann, því breski tónlistarmaðurinn Yellow Days er fullur eftirsjá í nýja laginu sínu The Curse. Mac Demarco kemur honum til aðstoðar með sína tóbaksgulu fingur og freðnu nærveru í laginu sem verður að finna á plötunni A Day In A Yellow Beat sem kemur út í næstu viku.


Arab Strap - The Turning of Our Bones

Eftir fimmtán ár í gröfinni hafa Skotarnir í Arab Strap risið upp og gefið út nýtt lag. Árin hafa ekkert mýkt hnausþykkan hreiminn sem tekur okkur í dáleiðandi og taktfast ferðalag um upprisu og kynferðismök, sem sagt allt eins og það á að vera hjá Arab Strap.


Gorillaz ft Robert Smith - Strange Timez

Gestalistinn hjá Gorillaz á nýju plötunni er farinn að minna á samnefnt lag með Ingó og veðurguðunum - það eru bókstaflega allir á henni. Í þessum sjötta kafla kemur Robert Smith úr Cure í heimsókn og það hefur greinilega verið full ástæða til að bjóða honum í partýið þar sem lagið fékk yfir milljón streymi á fyrstu 24 tímunum á YouTube.


Fimman á Spottanum