Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Engin úrræði fyrir tónlistarfólk – mínútuþögn í útvarpi

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Harðardóttir

Engin úrræði fyrir tónlistarfólk – mínútuþögn í útvarpi

11.09.2020 - 12:29

Höfundar

Mínútuþögn var á stærstu útvarpsstöðvum landsins á níunda tímanum í morgun. Tilgangurinn var að vekja athygli á aðstæðum sjálfstætt starfandi tónlistarfólks í kórónuveirufaraldrinum. Helgi Björnsson, tónlistarmaður og formaður Félags sjálfstætt starfandi tónlistarmanna, segir að engin úrræði séu fyrir þennan hóp og margt tónlistarfólk sé orðið verulega illa statt eftir margra mánaða tekjuleysi.

Þögnin varði klukkan 8.45 til 8.46. Henni var ætlað að vekja athygli á stöðu sjálfstætt starfandi tónlistarfólks og vera táknræn fyrir stöðuna sem það hefur búið við undanfarna mánuði, að sögn Helga.

„Við höfum átt erfitt síðustu mánuði. Fjöldatakmarkanir gera okkur ómögulegt að  stunda okkar vinnu og þar af leiðandi eru ansi margir félagsmenn okkar í mjög erfiðum málum. Svo ekki sé sagt meira. Við erum bara búin að vera atvinnulaus flest,  sumir eru aðeins heppnari en aðrir, en mjög mörg okkar eru í mjög erfiðum málum.“ 

Hann segir að þetta eigi við um að minnsta kosti 400 manna hóp sjálfstætt starfandi tónlistarfólks og að auki fjölmörg afleidd störf. Þeim hafi engin úrræði boðist enn sem komið er. Í mörgum nágrannalandanna hafi verið komið á fót einhvers konar bótasjóði fyrir þennan hóp og Helgi vonar að slík leið verði farin hér á landi.

„Það er erfitt fyrir atvinnuleysissjóð að grípa okkur. Við föllum einhvers staðar á milli skips og bryggju Nú er þetta orðið hálft ár, rúmlega, sem við höfum verið án atvinnu og við getum ekki beðið lengur. Það er bara þannig.“