Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verndað hús rifið í leyfisleysi á Skólavörðustíg

10.09.2020 - 07:10
Mynd: Úlfur Bjarni Tulinius / RÚV
Verndað hús á Skólavörðustíg 36 í Reykjavík var rifið í gær. Samkvæmt byggingafulltrúa Reykjavíkurborgar lá ekki fyrir leyfi til að rífa húsið. Húsið var byggt árið 1922. Allar framkvæmdir, niðurrif eða flutningur húsa sem eru byggð fyrir 1925 eru umsagnarskyld samkvæmt Minjastofnun.

Morgunblaðið greindi frá þessu í morgun.  Þar kemur fram að byggingafulltrúi hafi aðeins veitt leyfi fyrir því að einni hæð yrði bætt ofan á húsið. Byggingafulltrúi ætlar að skoða aðstæður í dag og fara yfir málið. Eigandi hússins segir að öll tilskylin leyfi hafi verið til staðar. Ætlunin hafi verið að byggja við húsið en burðarvirki hússins þyldi það ekki og því hafi það verið rifið. Til standi að byggja það aftur í upprunnalegri mynd. Framkvæmdirnar hafi verið í fullu samráði við eftirlitsaðila, en því hafnar byggingafulltrúinn.

Húsið var skráð til sölu vorið 2019. Þar kemur fram að það þarfnist mikilla endurbóta. Húsið var skráð rúmir 150 fermetrar en lóð þess um 216 fermetrar. Í því var bæði verslunar og íbúðarhúsnæði. Deiliskipulagstillaga gerði ráð fyrir verulegri stækkun verslunarhæðarinnar inn í lóðina og að gerðar yrðu þaksvalir ofan á hluta þeirrar hæðar. 

Í auglýsingunni kemur einnig fram að samkvæmt fyrirliggjandi samþykktu deiliskipulagi megi auka byggingarmagn á lóðinni með því að byggja eina hæð ofan á núverandi hús með kvistum á norðaustur og suðvesturhlið byggingarinnar.  Auk þess megi  byggja við verslunarhæð hússins til suðvesturs inn í lóðina.  

Á vef Minjastofnunnar kemur fram að öll hús byggð 1925 eða fyrr og allar kirkjur byggðar 1940 eða fyrr eru að auki umsagnarskyldar þegar kemur að byggingaleyfisskyldum framkvæmdum, niðurrifi eða flutningi.

Húsið er byggt árið 1922 eftir teikningu Guðmundar H. Þorlákssonar. Í húsinu var lengi rekin búsáhaldaverslun Þorsteins Bergmann. Rekstri verslunarinnar var hætt árið 2017, en hún hafði þá verið starfrækt frá árinu 1970. Í Húskönnun, skýrslu Minjasafns Reykjavíkur um varðveislugildi húsa í Miðbænum sem unnin var árið 2009 er meðal annars fjallað um Skólavörðustíg 36. Þar segir að húsið hafi gildi fyrir yfirbragð byggðarinnar og sé hluti af heillegri byggð húsa frá 3. áratugi 20. aldar.

Arnar Þórisson tók meðfylgjandi myndskeið í gær. Þar má meðal annars sjá hluta úr vegg hússins falla yfir á næstu lóð og lenda á hliði.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Mynd með færslu
Húsið áður en það var rifið.
Mynd með færslu
bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV