Sólhvörf - Emil Hjörvar Petersen

Mynd: Bjartur / Bjartur

Sólhvörf - Emil Hjörvar Petersen

10.09.2020 - 10:52

Höfundar

Glæpafurðusagan Sólhvörf eftir Emil Hjörvar Petersen er Bók vikunnar. Sólhvörf er önnur bókin í flokki glæpafurðusagna þar sem mæðgurnar Bergrún og Brá aðstoða yfirnáttúrudeild rannsóknarlögreglunnar við að upplýsa glæp sem tengist hliðarheimi við þann heim sem almennt er talinn hinn eini raunverulegi heimur. Fjórum börnum hefur verið rænt, tveimur í Reykjavík og tveimur úti á landsbyggðinni og líklegt að þar hafi drýsiltröll verið að verki en drýsiltröll eru börn Grýlu, sem sagt jólasveinar.

Umsjónarmaður þáttarins Bók vikunnar að þessu sinni er Jórunn Sigurðardóttir og gestirnir sem ræða um Sólhvörf og að líkindum einnig furðusögur almennt eru þau Björn Halldórsson rithöfundur og Brynhildur Heiðar - og Ómarsdóttir bókmenntafræðingur.

Í skáldsögunni Sólhvörf segir frá því hvernig mæðgurnar með hjálp næmi síns og tengsla við hulduheima komast á snoðir um dvalarstað horfnu barnanna og leggja upp í mikla háskaför inni í fjallgarðinn Hríðarfjöll ásamt tveimur tröllaveiðurum og drúída sem er galdramaður. Áður en þau finna börnin mega þau takast á við ýmsar tegundir trölla eins og Drýsiltröllin sem eru í raun jólasveinarnir þótt yfirbragð þeirra sé öllu grimmúðlegra en þeir jólasveinar sem við þekkjum í dag. Einnig verða á vegi þeirra útilegumenn sem eftir aldalanga dvöl í hulduheimum eru orðnir mannætur. Björgunarhópurinn nýtur líka góðrar aðstoðar ýmissa góðvætta. 

Emil Hjörvar Petersen er líklega afkastamesti höfundur furðusagna og fantasía á Íslandi en áður en hann hóf að skrifa bækurnar um mæðgurnar Bergrúnu og Brá hafði hann skrifað þríleikinn Saga eftirlifenda þar sem persónur norræna goðsagna voru í fyrirrúmi. Bækurnar um mæðgurnar eru nú einnig orðnar þrjár og heitir fyrsta bókin Víghólar og kom út árið 2016. Þar eru álfar í fyrirrúmi og umfjöllunarefnið fyrst og fremst náttúruspjöll, Sólhvörf kom svo ári síðar og eins og fram hefur komið eru þar einkum ólíkar tegundir trölla og dvera á ferð auk mannfólks og frásagnartæknin úr smiðju svokallaðrar hásfantastíu að sögn Emils Hjörvar. Síðasta bókin Nornasveimur fjallar svo eins og nafnið gefur til kynna um nornir og kom hún út árið 2019 og sver hún sig í ætt við hrollvekjur. Fjórða bók flokksins mun vera í smíðum og ekki gefið upp hvert þar er haldið í hinum ýmsu hliðarheimum sem höfundum fantasía hefur í gegnum tíðina tekist að leiða lesendum ljóslifandi fyrir sjónir.

Sagnaheimur allra bókanna sem hér hafa verið nefndar byggir á hliðstæðu Íslandi þar sem heimar vætta, þ.e. dverga, trölla, álfa og svo framvegis eru raunverulegir þótt aðeins fáir geti sett sig í tengsl við þá. Sjálfur kallar Emil þessar bækur glæpafantasíur en þær eru blanda af furðusögu, sakamálasögu og einkar raunsærri samtímasögu.