Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Pompeo: Skipunin kom frá Kreml

10.09.2020 - 01:06
Mynd með færslu
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Mynd:
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir miklar líkur á því að einhver hátt settur embættismaður í Kreml hafi gefið fyrirskipun um að rússneska stjórnarandstæðingnum Alexei Navalny yrði byrlað eitur. Frá þessu greindi hann í útvarpsviðtali í kvöld.

Hann ítrekaði að Bandaríkin stæðu með Evrópuríkjum við að þrýsta á rússnesk stjórnvöld að rannsaka málið í kjölinn. Stjórnvöld í Washington ætla einnig að gera hvað þau geta til að komast að því hver eða hverjir voru að verki.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í síðustu viku að hann hafi ekki séð neinar sannanir um að eitrað hafi verið fyrir Navalny. Þó höfðu Þjóðverjar greint frá niðurstöðum rannsóknar sinnar á Navalny þar sem sýnt var fram á að honum hafi verið byrlað taugaeitrið novichok.

Pompeo sagði í viðtalinu í kvöld að hann telji fólk um allan heim átta sig á því hvað hafi þarna gerst. Það hljóti svo að koma illa við rússnesku þjóðina ef rétt reynist að hátt settur embættismaður hafi gefið skipunina, að sögn ráðherrans.