Olíubornir bossar og þrýstnir stútar Kardashian-systra

Mynd: EPA / EPA

Olíubornir bossar og þrýstnir stútar Kardashian-systra

10.09.2020 - 15:54

Höfundar

Nú þegar raunveruleikaþættirnir Keeping up with the Kardashians eru að renna sitt skeið eftir þrettán ára sigurgöngu er vert að velta fyrir sér arfleifð, sigrum og skakkaföllum fjölskyldunnar á skjánum. Systurnar, sem allar eru moldríkar, hafa til dæmis haft gífurleg áhrif á almenna fegurðarstaðla með því að leggjast margoft undir hnífinn og kynna til leiks stæðilegar varir og flennistóra bossa sem margir þrá að geta einnig skartað.

Robert Kardashian heitinn, lögfræðingur og fjögurra barna faðir, fékk sínar fimmtán mínútur af frægð árið 1994. Hann var þá hluti af varnarteymi vinar síns, O. J. Simpson, í einum umtöluðustu réttarhöldum sögunnar. Athyglin var reyndar síst umbeðin og eftir að réttarhöldunum lauk dvínaði áhugi almennings. Robert hélt sig að mestu utan kastljóssins þar til hann lést árið 2003. Fjórum árum síðar fékk næstelsta dóttir hans, Kim Kardashian, sinn skammt af óumbeðinni frægð þegar kynlífsmyndbandi af henni og kærasta hennar, Ray J., var lekið á veraldarvefinn. Ólíkt föður sínum ákvað Kim að grípa gæsina og láta frægðina endast, eða kannski var það móðir hennar, Kris, sem greip fræðgartaumana. Hvar svo sem ábyrgðin liggur eru mínúturnar fimmtán orðnar að þrettán árum því fáeinum mánuðum eftir birtingu kynlífsmyndbandsins hóf glænýr raunveruleikaþáttur göngu sína: Keeping up with the Kardashians.

Nýverið tilkynnti fjölskyldan að komið væri að leiðarlokum og serían sem fer í loftið á næsta ári væri sú síðasta. Þáttaröðin kom fjölskyldunni rækilega á kortið og malaði henni gull. Þau hafa líka sent frá sér fjölda annarra systurþátta, byggt upp eigið vörumerki í fata- og förðunarlínum og smáforritum og það er ljóst að þau þurfa ekki lengur á þáttunum að halda til að viðhalda eigin frægð, frama og ríkidæmi. En ef Keeping up with the Kardashians gáfu fjölskyldunni heiminn, hvað hefur þáttaröðin gefið heiminum?

Mynd með færslu
 Mynd: Kim Kardashian - Instagram
Kim varð fræg fyrir kynlífsmyndband og kom allri fjölskyldunni á kortið

Frægð á grundvelli frægðar

Í fyrsta lagi ber að nefna frægð frægðarinnar vegna. Kardashian og Jenner systurnar eru stærstu raunveruleikastjörnur heims. þegar þættirnir hófu göngu sína höfðu raunveruleikaþættir þegar náð fótfestu á alþjóðavísu. En vinsælustu þættirnir snerust yfirleitt um keppni eða hæfileika, þættir á borð við Survivor, Big Brother, Idol, Americas Next Top Model og The Bachelor. Keeping up with the Kardashians hefur engan slíkan strúktúr og fjölskyldan enga hefðbundna hæfileika. Áhorfendur horfa ekki á þáttinn til að sjá dans, söng eða hver fær síðustu rósina heldur til að fá innsýn inn í dramatík ríkra, frægra einstaklinga.

Lengi vel var talað um Kim sem konuna sem tókst að verða fræg fyrir að vera fræg en það nægði líka áhorfendum. Auðvitað hafa systurnar allar og móðir þeirra fengið ýmsa hatta síðan og það er ekki hægt að halda því fram að þær séu hæfileikalausar. Þær eru alla vega snjallar í viðskiptum og markaðssetnginu, þeirri tegund þar sem fegurð og glamúr eru í fyrirrúmi og hefur verið leiðandi í þróun samfélagsmiðla á við Instagram og í þróun áhrifavalda sem margir hverjir eru þegar upp er staðið fólk sem er frægt fyrir að vera frægt.

Kardahsian-klanið byrjaði snemma að nota samfélagsmiðla sem markaðstól og í raun hafa samfélagsmiðlar tekið yfir það hlutverk sem raunveruleikaþættirnir gegndu áður. Instagram er í raun raunveruleikasjónvarp nema kannski betra því áhorfendur geta tekið þátt í efninu með því að deila því, skrifa athugasemdir og spyrja spurninga. Auk þess sem áhrifavaldarnir stjórna efninu og framsetningu þess algjörlega. Það er erfitt að mæla nákvæmlega þau leiðandi áhrif sem fjölskyldan hefur haft á miðilinn en ein leið væri að skoða þær fjárhæðir sem þau græða með því að klæðast ákveðnum fatnaði eða nota ákveðnar vörur á myndum og í myndböndum. Önnur leið væri að skoða þær Instagram-myndir eða myndbönd sem hafa fengið flest „læk“ í gegnum tíðina. Af tuttugu efstu á yngsta systirin, Kylie Jenner, sjö. Þriðja leiðin væri að skoða útlit annarra áhrifavalda en þar komum við að gjöf númer tvö.

Mynd með færslu
 Mynd: Youtube/EPA
Það hefur vakið aðdáun og athygli hvernig útlit Kylie Jenner hefur breyst eftir aðgerðirnar

Stórar varir Kylie Jenner

Ásýnd Kardashian og Jenner systranna hefur gjörbreyst frá því að þættirnir hófu göngu sína. Það á kannski sérstaklega við um þær Kylie og Kendall Jenner sem umbreyttust sem hendi væri veifað úr ofurvenjulegum stúlkum í ofurfyrirsætur. Vitaskuld vex fólk upp í nefið á sér með aldrinum en það er ekkert launungarmál að systurnar hafa farið í fjölmargar lýtaaðgerðir til að ná fram sinni fögru ásjónu. Ýktust er breytingin á Kylie Jenner og vörum hennar sem uxu gríðarlega á örskotsstundu.

Margir muna eftir The Kylie Jenner Lip Challenge frá árinu 2015 þegar táningar settu varir sínar inn í flösku eða skotglas og sugu loftið úr svo þeir enduðu með stokkbólgnar varir sem átti að svipa til frægra vara Kylie Jenner. En það var ekki þannig sem Kylie sjálf fékk sínar varir því hún fékk sér varafyllingu. Hún játaði það í maí 2015 og samkvæmt The Independent ruku fyrirspurnir um slíkar aðgerðir upp í Bretlandi í kjölfarið. Leiða má líkum að því að sömu sögu megi segja í Bandaríkjunum og víða um heim. Áhrifin má enn glögglega sjá, nú fimm árum síðar, og það líka hér á Íslandi í útliti áhrifavalda og ungra kvenna niður í framhaldsskólaaldur. Þrýstinn-stútur-fegurðarstaðallinn. En það eru fleiri þrýstnir líkamshlutar sem Kardashian fjölskyldan hefur komið á kortið.

epa06718134 Kim Kardashian arrives on the red carpet for the Metropolitan Museum of Art Costume Institute's benefit celebrating the opening of the exhibit "Heavenly Bodies: Fashion and the Catholic Imagination" in New York, New York, USA, 07 May 2018. The exhibit will be on view at the Metropolitan Museum of Art's Costume Institute from 10 May to 08 October 2018.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA
Rass Kim Kardashian er hennar verðmætasta söluvara

Geigvænlegur bossi Kim Kardashian

Snemma á tíunda áratug buðust konum einna helst tvennir samfélagslega samþykktir líkamar, grannur líkami Kate Moss eða sílikonsprengjur Pamelu Anderson. Rassar voru varla í umræðunni en þeir áttu alla vega alls ekki að vera fyrirferðamiklir. Í kringum aldamótin tóku þessir staðlar hins vegar að breytast og má þar meðal annars þakka lögulegum línum Jennifer Lopez sem sögð var hafa tryggt á sér bossann fyrir himinháar fjárhæðir, og svo breiðum mjöðmum Beyoncé. Svo komu Kardashian systur til skjalanna með Kim í broddi bossafylkingar.

Það er erfitt að vera viss um nákvæmlega hvernig rassinn á Kim leit út upprunalega og hvenær nákvæmlega fyrsta lýtaaðgerðin var gerð. En tímasetningin skiptir kannski ekki öllu, Kim gæti allt eins heitið Kardrassían, svo stóran gerði hún rassinn á sér og árið 2014 braut hann internetið. Svo sagði fyrirsögnin á Paper Mag alla vega við myndirnar af henni berháttaðri með olíuborinn bossann. Færa má rök fyrir því að rassinn á Kim sé hennar verðmætasta eign enda er hann, og örmjótt mittið til mótvægis, lykilþáttur í vörumerki hennar. Hún selur sín eigin aðhaldsklæði, meðal annars svokallaðan mittisþjálfa sem sumir læknar telja beinlínis skaðlegan, og græðir vel á því. Hún græðir á því að rassinn hennar sé í tísku því konur, og þá sérstaklega ungar, vilja líta út eins og hún.

Það er þess virði að minnast þess að framangreindar gjafir Keeping up with the Kardashians til heimsins eiga sér allar fordæmi. Sumir myndu jafnvel halda því fram að þær tækju einkenni og upplifanir annarra og gerðu þær að sínum eigin. Framkvæmdu menningarnám. Breytingarnar á útliti þeirra, lýtaaðgerðirnar, þjóna allar því hlutverki meðvitað eða ómeðvitað að gera uppruna þeirra óljósari, gera þær ethnicly ambigious eins og það heitir á ensku. Stóru varirnar og stóru rassarnir eru þannig algeng meðfædd líkamseinkenni svartra kvenna. Kardashian systur eiga vissulega rætur í Armeníu, eru ekki hvítar á norrænan mælikvarða, en þær og systur þeirra Kylie og Kendall þykja þó hafa gert sitt til þess að hvítþvo svarta menningu og einkenni. Fæst er frumlegt í þeirra sögu. Ekki einu sinni kynlífsmyndbandið, því einmitt með einu slíku skaust fyrrum vinnuveitandi Kim Kardashian, Paris Hilton, upp á stjörnuhimininn og fékk sinn eigin raunveruleikaþátt.

En peningarnir spyrja ekki um hver kom fyrstur og í heimi Kardashian skiptir raunveruleikinn að baki glamúrnum engu máli. Kannski er það fjórða gjöf Keeping up with the Kardashians til heimsins, afstæður raunveruleiki sem aðlaga má eftir þörfum, ef maður á peninga. Eða kannski, hefur raunveruleikinn einmitt alltaf verið þannig.

Anna Marsibil Clausen fjallaði um Kardashian fjölskylduna í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Dramatískustu augnablik Kardashian fjölskyldunnar

Menningarefni

Kardashian-slektið kveður skjáinn

Tónlist

Kim og Kylie ögra í áður óséðu tónlistarmyndbandi Tyga

Menningarefni

Kanye West og glíman við geðhvörfin