Nýtt frá Of Monsters and Men, Meginstreymi og fleirum

Mynd: Record Records / Visitor

Nýtt frá Of Monsters and Men, Meginstreymi og fleirum

10.09.2020 - 15:30

Höfundar

Útgáfan er hressileg þessa dagana og Undiraldan að venju stappfull af nýrri íslenskri tónlist. Meðal þess helsta að þessu sinni eru nýir sönglar frá Of Monsters and Men, Red Barnett og norskíslenska dúettinum Ultraflex.

Of Monsters And Men – Visitor

Hljómsveitin Of Monsters and Men sneri aftur í gær með glænýtt lag og tónlistarmyndband. Lagið heitir Visitor og er það fyrsta sem heyrist af nýju efni frá sveitinni síðan breiðskífan Fever Dream kom út í fyrra. Lagið Visitors gefur að sögn útgefanda forsmekkinn að næsta ári þegar OMAM ætlar að fagna 10 ára afmæli sínu.


Ultraflex – Never Forget My Baby

Dúettinn norskíslenski, Ultraflex, sendir frá sér sinn þriðja söngul 15. september. Það er lagið Never Forget My Baby. Það eru sem fyrr þær Farao frá Noregi og Special K frá Íslandi sem draga Ultraflex-vagninn í laginu sem útgáfufyrirtæki þeirra segir að minni á Robyn og Janet Jackson.


Meginstreymi – Finnst þér sama og mér

Hljómsveitin Meginstreymi hefur að eigin sögn leikið á dansleikjum víðsvegar um landið frá stofnun sveitarinnar. Undanfarið hefur hún þó nýtt skemmtanabannið til að búa til frumsamda tónlist og lagið Finnst þér sama og mér kom út síðastliðinn föstudag.


Doddi – U+I

Þúsundþjalasmiðurinn og umsjónarmaður Morgunverkanna, Þórður Helgi Þórðarson eða bara Doddi, hefur sent frá sér nýtt dimmt diskólag sem heitir U+I sem hann segir að sé af fyrstu og síðustu sólóplötu sinni.


Celebs – Sætur

Hljómsveitin Celebs er skipuð þeim Hrafnkatli Huga Vernharðssyni, Valgeiri Skorra Vernharðssyni og Kötlu Vigdísi Vernharðsdóttur og þau stefna á útgáfu sinnar fyrstu plötu, Tálvon hinna efnilegu, sem kemur út í dag.


Red Barnett – Turning Up

Hljómsveitin Red Barnett hefur sent frá sér lagið Turning Up. Sveitin stefnir á stóra plötu í október en nú eru liðin 5 ár frá fyrstu plötunni sem hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin.


Örn Eldjárn – War Cry

Árið 2015 fékk Örn Eldjárn til liðs við sig glæsilegan hóp hljóðfæraleikara og tók upp lagið War Cry sem hann gaf út á dögunum. War Cry er einhvers konar myndlíking við þá innri baráttu sem við þurfum að heyja til að standa með sjálfum okkur, og láta ekki samfélagið ákvarða virði okkar, segir í tilkynningu frá listamanninum.