Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nýjar áskoranir á tímum Covid

10.09.2020 - 22:05
Fjarfundur í Hörpu
 Mynd: Hjalti - RUV
Ráðstefnuhaldarar hafa í auknum mæli tekið tæknina í sína þjónustu til að glíma við nýjar áskoranir í Covid faraldrinum. Ráðstefnur sem áður drógu til sín mörg hundruð gesti fara nú að mestu leyti fram á netinu.

Mörgum ráðstefnum hefur verið aflýst vegna samkomubanns og ferðatakmarkana en þær sem hafa verið haldnar hafa verið sendar á netinu. Skipuleggjendur hafa þurft að takast á við nýjar áskoranir og tileinka sér ný vinnubrögð.

Advania stóð fyrir fjarráðstefnu í Hörpu í dag. Í venjulegu árferði hefði salurinn verið stútfullur af gestum en í dag voru þarna aðeins örfáir tæknimenn og nokkrir fyrirlesarar. Á annað þúsund manns fylgdust hins vegar með ráðstefnunni á netinu.

„Í staðinn fyrir að við séum að taka á móti þúsund manns þá erum við hérna tíu að keyra þetta áfram. Þannig að þetta er örlítið öðruvísi,“ segir Auður Inga Einarsdóttir markaðsstjóri Advania.

Í morgun var haldin fjarráðstefna um sjálfbærni þar sem meðal annars Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir ferðamálaráðherra tóku til máls. Fundurinn fór fram á fjarfundaforritinu Zoom. Síðdegis var svo haldin ráðstefna um menntamál sem einnig fór að mestu leyti fram á netinu. Ráðstefnan átti upphaflega að fara fram í síðasta mánuði en var frestað vegna Covid.

Ragnar Þór Pétursson formaður Kennarasambandsins segir að fjarfundarformið bjóði upp á ýmsa möguleika sem ekki voru áður fyrir hendi.

„Nándin verður kannski ekki sú sama strax en á móti kemur að útbreiðslan getur orðið miklu meiri. Miklu fleiri komast að borði til umræðna sem hafa kannski verið í lokuðum hópum. Þannig að þegar þjóðþrifamál og mikilvæg mál eru til umræðu eins og það sem verið er að ræða hér í dag þá getur það beinlínis verið gott fyrir lýðræðið að svona sé gert fyrir opnum tjöldum, þar sem allir hafa aðgang og allir hafa rödd. Þannig að það eru tækifæri þarna eins og í kófinu öllu,“ segir Ragnar. 

 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV