Mætum Portúgal í fyrsta leik HM 2021

epa08141449 Gudjon Ymir Orn Gislason (C) celebrates during the Men's European Handball Championship main round Group 2 match between Portugal and Iceland in Malmo, Sweden, 19 January 2020.  EPA-EFE/ANDREAS HILLERGREN  SWEDEN OUT
 Mynd: EPA

Mætum Portúgal í fyrsta leik HM 2021

10.09.2020 - 13:37
Skipulagsnefnd HM í handbolta karla í Egyptalandi 2021 gaf í dag út leikjadagskrá mótsins og leikstaði. Ísland mætir Portúgal í fyrsta leik þann 14. janúar, nokkrum dögum eftir að liðin mætast í tvígang í undankeppni EM 2022.

Ísland er í riðli með Portúgal, Marokkó og Alsír og er það F-riðill. 

Mótið hefst 14. janúar og Ísland á leik strax á fyrsta degi. 16. janúar mætir Ísland svo Alsír og loks Marokkó þann 18. janúar. Þrjú efstu liðin komast áfram í milliriðil. Komist íslenska liðið þangað bætast liðin úr E-riðli við en þar leika Austurríki, Noregur, Frakkland og lið frá Norður-Ameríku sem á eftir að útkljá.

Þrenna gegn Portúgal á 8 dögum

Það er óhætt að segja að íslenska og portúgalska liðið muni þekkjast vel þegar kemur að leiknum á HM. Liðin eru nefnilega líka saman í undankeppni EM 2022 og mætast tvívegis í janúar fyrir HM. Fyrri leikurinn er í Porto í Portúgal þann 6. janúar og svo hér heima þann 9. 

Einsdæmi er að leikið sé í undankeppni EM í aðdraganda HM. Eins og marga grunar kannski þá er kórónaveirufaraldurinn ástæðan. Fresta þurfti umspili Ólympíuleikanna vegna faraldursins og þá voru góð ráð dýr í þéttu leikjaplani alþjóðahandbolta. Ekki var hægt að koma umspilinu fyrir nú í haust vegna undankeppni EM og þéttrar leikjadagskrár í stóru deildunum og Meistaradeildinni. Lausnin var að setja Ólympíuumspilið í mars, á sömu helgi og verið er að spila í undankeppni EM. 

Lausnin varð því sú að þau lið sem taka þátt í umspili Ólympíuleikanna og spila líka í undankeppni EM myndu spila EM-leikina í janúar fyrir HM. Portúgal er með í umspili Ólympíuleikanna og því spilum við gegn þeim í janúar.

Ný höll í nýrri borg

Samhliða útgáfu leikjaniðurröðunar var gefið út hvaða riðlar spila hvar. Riðill Íslands og B-riðill Spánar, Brasilíu, Túnis og Póllands leika í Nýju höfuðborginni (e. New Administrative Capital). Borgin er nýbyggt úthverfi Kaíró og mun í framtíðinni verða aðsetur egypskra stjórnvalda og fjármálamiðstöð landsins.

Borgin er 60 kílómetrum fyrir utan Kaíró, hálfa leið til Suez.

Íþróttahöll borgarinnar var sérstaklega byggð fyrir HM og er hluti af íþróttaþorpi borgarinnar. Hún rúmar 7.500 áhorfendur en óstaðfest er hversu mörgum verður leyft að sækja hvern leik HM.

Allir leikir Íslands og tugir annarra verða sýndir beint á RÚV og RÚV 2.