Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Loka hellum í Þeistareykjahrauni

Mynd með færslu
Úr dropsteinshellinum í Þeistareykjahrauni Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Allir hellar í Þeistareykjahrauni að Togarahelli undanskilum eru lokaðir samkvæmt náttúruverndarlögum frá og með 10. september. Þá verður aðgangur óheimill en ekki er enn búið að setja hlera eða eitthvað sambærilegt svo ekki verði hægt að ganga inn í hellana.

Fyrir um tveimur árum uppgötvuðu félagar í Hellarannsóknafélagi Íslands ósnortinn og einstakan dropasteinshelli í Þeistareykjahrauni.

RÚV greindi frá hellinum í janúar. Umhverfisráðherra hafði þá þegar farið fram á það við Umhverfisstofnun að fjórum hellum í Þeistareykjahrauni yrði lokað, þar á meðal þessum 2500 ára dropsteinshelli. Ólafur Arnar Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun sagði þá í samtali við fréttastofu að undirbúningsvinna við lokun þessara hella væri þegar hafin og hann vonaðist til þess að aðgerðirnar gætu farið af stað á næstu vikum. Þá sagði hann einnig að stofnunin væri farin að kanna möguleikann á að friðlýsa svæðið.

Nú, níu mánuðum síðar er komið að því að hellunum verður lokað. Daníel Freyr Jónsson, sérfræðingur hjá náttúruverndarteymi Umhverfisstofnunar segir vinnuna hafa dregist og hann hafi engar betri skýringar á því hvers vegna svo langur tími hafi liðið. Þetta sé í fyrsta skipti sem þessu lokunarákvæði sé beitt og málið hafi verið tímafrekt. Umhverfisráðherra hafi nýlega skrifað undir og samþykkt lokun hellanna. Lokunin var kynnt í Stjórnartíðindum 10. september og tók strax gildi. 

Umferð um hellana óheimil með lögum

Umferð um hellana verður þá brot á 25. grein náttúruverndarlaga og viðurlög geta verið sektir eða fangelsisvist. Einungis þeir sem sinna lögbundnum rannsóknum og eftirliti með verndun hellanna er heimilt að fara um þá. Lokunin gildir fyrir alla hella í Þeistareykjahrauni, fyrir utan svokallaðan Togarahelli en um hann hefur lengi verið umferð. Daníel segir eftir að ákveða hvernig hellunum verði svo lokað þannig að ekki sé hægt að ganga inn í þá. Aðgerðirnar séu misdýrar en einhverju verði komið upp til að fólk geti ekki farið inn og á dagskrá að gera það fyrir veturinn. 

Hafa ekki orðið vör við umgang í sumar

Dropsteinshellirinn sem fjallað var um í janúar er einstakur á heimsvísu vegna mikils magns dropsteina og stærðar þeirra. Í vetur var fólk því hvatt til að leita ekki að hellinum og óttast að viðkvæmar hraunmyndanir í honum yrðu eyðilagðar eins og í hellinum Leiðarenda, skammt frá höfuðborgarsvæðinu, þar sem tugir dropasteina hafa verið brotnir og ágangur ferðamanna er mikill.  

Daníel segir þau hafa haft töluverðar áhyggjur af því að fólk myndi fara um hellana í sumar. Hellarannsóknarfélagið hafi hins vegar farið og athugað stöðuna og sagt að þar hafi ekki verið neitt athugavert að sjá.

Nýskipaður starfshópur skoðar friðlýsingu

Nýlega var skipaður starfshópur sem undirbýr friðlýsingu svæðisins. Hildur Vésteinsdóttir, teymisstjóri friðlýsinga og áætlana hjá Umhverfisstofnun segir hópinn ekki enn hafa hist og of snemmt sé að segja til um hvort friðlýsingin muni aðeins eiga við um hellana eða líka hraunið í kring. Hópurinn er skipaður fulltrúa frá Þingeyjarsveit, sem fer með skipulagsvald og er landeigandi, Umhverfisstofnun og Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Daníel segir lokun hellana verða endurskoðaða að ári. Hún sé hugsuð sem lokunaraðgerð þar sem hellunum sé komið í skjól fram að friðlýsingu, sem yrði varanlegra stjórntæki. 

Uppfært 18:11 Öllum hellum nema einum verður lokað, ekki fjórum eins og sagði upphaflega.

Uppfært 08:11, 11. sept. Áður sagði að lokunin tæki gildi 11. september en hún tók gildi þann 10.