Litlu og stóru atriðin sem skipta sköpum

Mynd: cc / cc

Litlu og stóru atriðin sem skipta sköpum

10.09.2020 - 14:00

Höfundar

Bernardine Evaristo tekst að taka til umfjöllunar ólíklegustu mál og samfélagslegar aðstæður í verðlaunabókinni Girl, Woman, Other.

Bernardine Evaristo er breskur rithöfundur af blönduðum nígerískum og breskum uppruna sem þegar með fyrstu skáldsögu sinni, Lara, frá árinu 1997 tók að vekja athygli bókmenntafólks fyrir nýstárlegan frásagnarmáta og umfjöllunarefni. Lara er ljóðsaga og nokkurs konar skáldævisaga, svo notað sé hugtak Guðbergs Bergssonar um eigin ævisögu, og eins og margar síðari bækur Evaristo spannar Lara langan sögulegan tíma. Sagan sem slík gerist þó að mestu á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar í London en hún teygir sig einnig aftur til genginna kynslóða sem áttu sitt líf á ýmsum stöðum í heiminum, líkt og áar Evaristo sjálfrar, nefnilega í Nígeríu, á Írlandi, í Þýskalandi og í Brasilíu.

Í næstu bók sinni, The Emperors Babe, sem kom út 2001 og mun einnig vera ljóðsaga, kafar Bernardine Evaristo enn lengra ofan í djúp sögunnar, allt aftur til Rómaveldis. Í því verki segir frá hörundsdökkri unglingsstúlku í London fyrir tæpum tvö þúsund árum þegar þéttbýliskjarninn Londonium á Bretlandseyju var hluti af Rómaveldi. Í vor var á þessum vettvangi rætt um fjölmenningarbókmenntir við Fríðu Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskóla Íslands sem einnig er bókmenntafræðingur og sagði Fríða þar frá skáldsögunni The Emperors Babe eftir Bernardine Evaristo.

epaselect epa07921247 Canadian author Margaret Atwood (L) and British author Bernardine Evaristo (R) following the announcement of the 2019 Booker Prize at the Guildhall in London, Britain, 14 October 2019. Atwood and Evaristo were jointly awarded the 2019 Booker Prize for the 'Testaments' and 'Girl, Woman, Other'.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA
Bernardine Evaristo fékk Booker-verðlaunin ásamt Margaret Atwood árið 2019.

Í Booker-verðlaunabókinni Girl, Woman, Other fléttar Bernardine enn saman sögur ólíkra tíma en er nú nær okkur í tíma. Þeir eru tólf sögumennirnir eða öllu heldur sögukonurnar sem segja frá í þessari bók, allar fæddar á síðustu öld, sú elsta 94 ára og sú yngsta 19. Þær búa nær allar á Bretlandi og eru allar utan ein svartar á hörund, sumar þeirra þekkjast eða hafa tengst á einhverju skeiði lífs síns. Bókin skiptist í fimm kafla og inniheldur hver þeirra, utan sá síðasti, frásagnir af þremur konum. Þetta eru konur á ólíkum aldri og frá ólíkum stöðum í samfélaginu, sumar búa í stórborg, aðrar í minni borgum og ein er meira að segja bóndi. Með lífssögum þessara kvenna, dregur Bernardine Evaristo upp mynd af lífi hörundsdökkra kvenna í Bretlandi síðustu hundrað árin um það bil, lífi sem fæst okkar þekkja mikið til.

Afhjúpandi fjarvera svartra kvenna í breskum bókmenntum

Gaumgæfum sem snöggvast þær myndir sem birtast fyrir hugskotssjónum okkar þegar við lesum skáldsögu. Við sjáum fyrir okkur sögusvið sem yfirleitt tengist einhverju sem við þekkjum eða höfum séð á myndum. Persónurnar sem athafna sig á þessu sögusviði hafa vestrænt yfirbragð nema ef vera skyldi að sögusvið bókarinnar sé í Asíu, Afríku eða rómönsku Ameríku. Sé sögusviðið í vestrænu landi er varla nokkur persóna í áðurnefndri hugarmynd okkar svört, brún eða gul nema að sérstaklega sé verið að fjalla um slíka „jaðarhópa“. Bókin Girl, Woman, Other er beinlínis skrifuð þessum almennu og fastmótuðu hugmyndum til höfuðs og í nýlegu viðtali sem Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra skosku þjóðarstjórnarinnar, tók við Bernardine Evaristo á nýafstaðinni bókmenntahátíð í Edinborg, og var streymt á heimasíðu hátíðarinnar, sagði hún að kveikjan að bókinni hefði beinlínis verið hin afhjúpandi fjarvera svartra kvenna í breskum bókmenntum. Skrifin hefðu síðan undið upp á sig og hún hefði tekið að kanna ýmislegt fleira sem tengdist þessari fjarveru og skiptingunni milli miðju og jaðars almennt. Þessi bók grundvallast nefnilega á viðfangsefnum, sagði Evaristo. „Ég vildi miðla eins mörgum og líkum leiðum svartra kvenna í Bretlandi og ég mögulega gæti. Stétt skiptir í þessu samhengi líka máli sem og menningarlegar rætur, sumar kvennanna eru beinlínis frá Afríku eða rekja ættir sínar þangað, aðrar til Karíbahafsins, sumar eru fæddar í Bretlandi svo eru amerískar konur, einnig skipti kyn, kynhneigð og kyngervi máli upp á fjölbreytileikann og auðvitað líka aldur.“

Upplausn viðtekinna gilda

Bernardine lauk doktorsprófi í skapandi skrifum við Háskólann í London árið 2013 en lærði upphaflega leiklist bæði í Rose Bruford College of Speech and Drama og í Goldsmiths College. Það þarf því kannski ekki að koma á óvart að í upphafsfrásögn skáldsögunnar „Stúlka, kona, hin“ er einmitt leikritahöfundurinn og leikstjórinn Amma aðalpersóna en einnig koma við sögu dóttir hennar Yass og besta vinkonan Dominique auk fjölda annarra persóna. Amma býr í Brixton og er líklega í kringum sextíu ára gömul og hún er á leið á frumsýningu eigin verks í Þjóðleikhúsinu. Lengi framan af ferli sínum á síðustu áratugum síðustu aldar lagði hún sig eftir sjálfstæðu og pólitísku leikhúsi þar sem misrétti í samfélaginu, undirokun kvenna, ekki síst svartra kvenna, og nauðsyn á kerfisbreytingu var í forgrunni. Faðir Ömmu flúði frá Gana nokkrum árum áður en hún fæddist og kvæntist breskri konu.

Á unglingsárum sínum þótti Ömmu að móðir hennar væri allt of þjónustulunduð við karlrembuna sem henni þótti afrískur faðir sinn vera. Amma flytur enda ung að heiman og á þessum tíma er allt að gerast í Brixton-hverfinu sem er þekkt fyrir litríka markaði og fjölmenningu en var á áttunda og níunda áratugnum einnig þekkt sem vettvangur margs konar pólitískra mótmæla. Þarna ægir saman alls konar hópum og ólík samlífsform eru leikin og æfð, festa sig jafnvel í sessi og Amma tekur lifandi þátt í þessum hræringum með sínum persónulega hætti. Hún vill til að mynda alls ekki bindast neinum einum eða öllu heldur neinni einni því Amma er lesbísk. Í stuttri frásögn á tæplega fjörutíu blaðsíðum er því lýst hvernig Brixton breytist með því að stikla í gegnum líf Ömmu. Í raun tekst Bernardine Evaristo í frásögninni af hverri konu fyrir sig að gefa lesendum innsýn í líf þessara 12 kvenna, allra nema einnar svartrar, að draga upp mynd af því hvernig vestrænt samfélag breyttist, í raun kollsteyptist á síðustu þrjátíu árum síðustu aldar. Allt varð meira flæðandi, samfélagið jafnt sem einstaklingarnir, eða var einfaldlega farið að draga markalínur í samfélaginu með öðrum hætti? Bókin gefur ekki svar við því heldur reifar þá upplausn viðtekinna gilda sem orðið hefur með auknu kvenfrelsi og kynfrelsi svo eitthvað sé nefnt. Lesandanum er hins vegar látið eftir að greina einstaka þræði.

Amma á hálfuppkomna dóttur, Yass, sem stundar háskólanám. Aðalsamstarfskona hennar og kannski stærsta ástin í lífi hennar, að minnsta kosti besti félaginn, Dominiqe, er flutt til Bandaríkjanna af ástæðum sem lesandinn fær ekki að vita hverjar eru fyrr en í kaflanum sem fjallar um hana. Á þeim tíma sem frásögnin gerist með tilheyrandi endurlitum er augljóst að sjálfstæðu, pólitísku leikhúsin í Brixton og annars staðar í London eru ekki lengur svipur hjá sjón. Það kom Ömmu því verulega á óvart að fá boð frá Þjóðleikhúsinu um að setja þar upp verk sitt The Last Amazonas of Dahome, síðustu stríðskonur Dahomey, og myndar frumsýningarkvöldið eins konar frásagnarramma þessa fyrsta kafla og reyndar bókarinnar allrar því allflestar persónanna sem lesandinn á eftir að kynnast mæta á frumsýninguna.

Mynd með færslu
 Mynd: Waterstone/Amason

Aðstæður Ömmu sjálfrar hafa ekki síður breyst en Brixton þar sem hún á ungdómsárum hóf sína sjálfstæðu tilveru. Hún býr þar vissulega ennþá en nú í eigin íbúð ásamt dótturinni en bæði eigið húsnæði og barnið tengjast fráfalli foreldra hennar. Arfurinn eftir þau gerði henni kleift að kaupa lítið hús og um svipað leiti heltók hana sú brennandi ósk að eignast barn. Góður vinur hennar, samkynhneigður doktor í nútímafræðum við Háskólann í London og í föstu sambandi, var reiðubúinn til að vera faðir barnsins og allt gekk vel. Amma gerði allt sem hún gat til að ala dóttur sína upp til sjálfstæðis í skoðunum og þær skoðanir skyldu vera femínískar. Það gekk kannski ekki nákvæmlega eins og hún ætlaði en nú saknar hún dóttur sinnar og vonar að hún, dóttirin, öfugt við hana sjálfa, snúi aftur heim til móðurinnar eftir háskólanámið enda gera aðstæður nýfrjálshyggjunnar að verkum að fæst ungt fólk hefur efni á að flytja að heiman.

Í kaflanum um Yass fær lesandinn svo hennar hlið á sambandinu við móðurina sem og föðurinn Roland; við kynnumst háskólaklíku Yass í frásögninni á sama tíma hún sjálf. Þetta eru stelpur sem koma víða að, ein úr hræðilegum aðstæðum í Sómalíu, önnur er af forréttindafólki frá Egyptalandi og svo er þarna líka Courtney, föl sveitastelpa frá Suffolk sem hafði aðeins einu á ævinni komið til London áður en hún hóf háskólanám. Í kaflanum um Dominique kynnumst við svo últrafemínískri og lesbískri kvennanýlendu á vesturströnd Bandaríkjanna en líka samvinnu og hjálpsemi kvenna. Þótt það hafi verið ástin sem dró Dominique til Bandaríkjanna fer það ástarævintýri ekki vel, valdníðsla og ofbeldi á sér ekki aðeins stað í gagnkynhneigðum samböndum. Allt er þó gott sem endar vel og Dominque nær í Bandaríkjunum fótfestu í því sem hún kann svo vel, nefnilega að skipuleggja menningarviðburði og afla þeim fjár og athygli. Við það hafði hún á sínum tíma unnið með Ömmu í Brixton en nú er vettvangur hennar Los Angeles og jafnvel heimurinn allur.

Heimurinn allur er hins vegar örugglega leiksvið Carole Williams sem með góðum stærðfræðigáfum og dugnaði kláraði háskóla og veitti móður sinni þá sælu að sjá dótturina, sem hún flúði með til Bretlands frá Nígeríu eftir fráfall föður hennar, í toppstöðu í alþjóðlegum banka í City. Það skyggir reyndar á velgengni dótturinnar í augum móðurinnar að hún giftist hvítum manni og bindur enda á hreinan nígerískan ættlegg fjölskyldunnar. Við fáum líka sýn móðurinnar, Bummý, í sérkafla sem og skólasysturinnar LaTisha KaNisha Jones. Í þriðja kafla bókarinnar er svo komið að kennslukonunni Shirley og reyndar líka móður hennar Winsome. Shirley var ekki aðeins kennari þeirra Carole og LaTishu á sínum tíma heldur er hún einnig bernskuvinkona leikkonunnar Ömmu og vinnufélagi hinnar nokkru eldri og margfráskildu Penelope en Bummý þrífur heima hjá henni. Og þá má ekki gleyma Megan sem síðar verður Morgan og býr með Bíbí sem fæddist sem strákur en hefur gengist undir hormónameðferð og annað tilheyrandi til að verða stelpa. Þá er bara eftir að nefna mæðgurnar Hattie og Grace, Grace sem er reyndar látin en við fáum samt sögu hennar sem nær aftur fyrir síðari heimsstyrjöld.

Sambönd mæðra og dætra

Með öllum þessum sögum um konur, sem eru svo ólíkar að öllu leyti, en samt tengdar fjölskyldu- eða vinaböndum tekst Bernardine Evaristo að taka til umfjöllunar ólíklegustu mál og samfélagslegar aðstæður. Mótsagnir kynja jafnt sem kynslóða, stétta og menningar eru afhjúpaðar, kannaðar og krufnar í snörpum og ljóðrænum texta sem gefur lesanda alltaf færi á að setja hlutina í samhengi við sinn eigin veruleika og sögu með öllu því sem tilheyrir í lífinu eins og mat og drykk, tónlist, kvikmyndum og bókum. En þessara sjálfsögðu þátta lífsins fá sumar kvennanna ekki að njóta fyrr en á efri árum svo sem Winsome, sem er áttræð, fyrrum starfsmaður í almenningssamgöngutækjum í London þar sem hún sá til þess að allir keyptu miða, já og móðir kennslukonunnar Shirley.

Meginleiðarstefið í gegnum allar þessar frásagnir er samband móður og dóttur. Feður koma líka við sögu en hér eru konurnar í forgrunni og allar vilja þessar svörtu mæður að dætrum þeirra vegni vel í lífinu og ráðleggingar svartra foreldra í umhverfi hvítra eru margar kunnuglegar: Mikilvægi menntunar er eitt, ef þér finnst fólkið í nýju vinnunni líta þig hornauga, stattu þig þá betur; ef starfi er sinnt af natni og vandvirkni verður það ánægjulegra; ekki berja á móti heldur hlaupa og svo framvegis og svo framvegis. Einhverjir ná ekki að aðlagast, heltast úr lestinni og finna sig ekki, en konunum tólf sem hér er frá sagt vegnar á endanum þokkalega, svona eins og gengur og gerist. Þær ná flestar sínum markmiðum hvort heldur það er að komast í toppstöðu í hinum alþjóðlega peningaheimi, hjálpa svörtum börnum að komast áfram í lífinu með því að kenna þeim vel, stunda list sína, koma börnum sínum, að minnsta kosti dótturinni, þannig til manns að mæðurnar geti stoltar við unað, hvort dæturnar baða sig allar í bullandi hamingju er svo annað mál. En þannig er það bara hvort heldur fólk er svart eða hvítt, hinsegin eða kynsegin.

Þetta er bók um litlu og stóru atriðin sem skipta sköpum og svo eru það ákvarðanir, að fylgja eftir markmiði, finna leið á tíunda áratugnum til að verða móðir sem lesbísk kona, að drífa sig á námskeið og í alls konar kvöldskóla til að komast í betri stöðu á vörulager eða hasla sér völl í alþjóðlega fjármálaheiminum, mega í fyrsta sinn faðma móður sína verandi orðin áttræð, ferðast um heiminn og halda fyrirlestra um kynsegin tilveru hafandi varla náð grunnskólaprófi á sínum tíma, finna jafnaldra dást að sjötugum líkama sínum. Allt sannar skjaldmeyjar í flokki svartra kvenna sem mæta okkur alls staðar í heiminum. Svolítið annars eðlis vissulega en þessar frá Dahomey sem leikrit Ömmu fjallar um en sú hersveit var sannarlega til í héraðinu Dahomey, sem nú er hluti af Nígeríu, fyrir hundrað árum og auðvitað mæta flestar kvennanna sem við höfum kynnst í gegnum skáldsöguna Girl, Woman, Other á frumsýningu leikrits um þær. Partí í lokin er frábær leið til að binda enda á bókina sem einkennist af því að það eru engin endalok, allt heldur áfram í flæði óaflátanlegra breytinga sem við stundum fylgjum eftir en stundum líka horfum aðeins á úr öruggri fjarlægð.

Trúin á breytingarmátt skáldskaparins

Girl, Woman, Other er frábær bók og óvenjuleg. Útgangspunktur hennar er óvenjulegur, málfarið, byggingin og framsetning textans er meira að segja svo óvenjuleg að rafbókarisinn Amazon lenti í vandræðum vegna staðalfrávika. Í bókinni eru nefnilega hástafir aðeins notaðir í nöfnum, punktar nær engir og önnur greinarmerki hverfandi. Skipting milli lína er hins vegar afar nákvæm, stundum jafnvel aðeins eitt orð í línu. Frómt frá sagt tók ég ekkert eftir þessu fyrr en mér var bent á það og þannig skilst mér að mörgum sé farið. Það er hins vegar augljóst að með þessu tekst Bernardine Evaristo að ljá textanum sem slíkum sama flæðið og er hið eiginlega inntak bókarinnar. Sjálf sagði hún á bókmenntahátíðinni í Edinborg að með öðrum hætti hefði henni verið ómögulegt að skrifa þessa bók. Hún sagðist líka trúa því að skáldskapur geti breytt hugsunarhætti, víkkað sjóndeildarhringinn, meðvitað eða ómeðvitað.

Í tengslum við óróann í kjölfar morðsins á George Floyd og endurvakningar Black lives matter-hreyfingarinnar hefði fólk tekið að dreifa leslistum með verkum svartra og asískra höfunda. Þá hefði hún hugsað: Skyldi fólk gera sér grein fyrir að lestur þessara bóka mun breyta hugsun þeirra. Hún þekki þetta af eigin raun og nefndi meðal bóka sem hefðu haft áhrif á hana sjálfa Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness, sem yljar íslenskum hjörtum sérstaklega. Sem sagt, rík ástæða til að kynna sér verk Bernardine Evaristo og mikið væri gaman að mega lesa verk hennar í íslenskri þýðingu sem þó er örugglega ekki áhlaupaverk.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Samskipti eftir sem áður aðalmálið

Bókmenntir

Tveir höfundar fá Man Booker verðlaunin