Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gerði vísvitandi lítið úr hættunni

10.09.2020 - 05:18
epa08657597 US President Donald J. Trump announces his list of potential Supreme Court nominees and answers questions about the Coronavirus during an event in the Diplomatic Room of the White House, in Washington, DC, USA, 09 September 2020.  EPA-EFE/Doug Mills / POOL
 Mynd: EPA-EFE - The New York Times POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, viðurkenndi í viðtali við blaðamanninn Bob Woodward að hafa vísvitandi gert lítið úr kórónuveirufaraldrinum. Þetta kemur fram í væntanlegri bók Woodward. 

Bókin byggir að miklu leyti á átján viðtölum Woodward við Trump sem tekin voru frá byrjun desember í fyrra fram til júlí á þessu ári. Þegar þann 7. febrúar sagði Trump Woodward frá því að kórónuveiran væri skæð, og fimm sinnum banvænni en hin hefðbundna flensa. Um miðjan mars sagði Trump frá því að hann hafi ákveðið að gera lítið úr faraldrinum opinberlega til þess að koma í veg fyrir ofsahræðslu í samfélaginu. Þá kemur fram að þjóðaröryggisráðgjafinn Robert O'Brien hafi greint Trump frá því strax í lok janúar að veiran yrði stærsta ógnin við þjóðaröryggi í forsetatíð hans. 
Woodward gagnrýnir forsetann fyrir að hafa ekki gripið til harðari aðgerða til þess að hefta faraldurinn í upphafi.

Trump ítrekaði afstöðu sína á blaðamannafundi í gærkvöld. Hann sagðist vera klappstýra þjóðarinnar, og hann hafi gert lítið úr faraldrinum til þess að forðast að hræða almenning. Hann sagði mikilvægt að sýna leiðtogahæfni, og trú á þjóðina væri til merkis um það.

Neitar allri ábyrgð

CNN fréttastofan hefur eftir sérfræðingum að ef Trump hefði lagt á samkomutakmarkanir og sent skýr skilaboð um grímunotkun, fjarlægðarmörk og handþvott hefði hann geta komið í veg fyrir dauða þúsunda Bandaríkjamanna. Yfir sex milljónir Bandaríkjamanna hafa greinst með kórónuveiruna sem veldur COVID-19 og hátt í 200 þúsund eru látnir af völdum sjúkdómsins. Í síðasta viðtalinu, 21. júlí, segir Trump faraldurinn ekki sér að kenna, því Kínverjar hafi sleppt veirunni lausri.

Segir bókina verða falska

Auk viðtalanna við Trump ræddi Woodward við fjölda embættismanna og fékk aðgang að fjölda gagna, dagatala og leyniskjala. Bókin, sem ber nafnið Rage, eða Bræði, er önnur bók Woodward um forsetatíð Trumps. Árið 2018 kom út bókin Fear, þar sem hann greindi frá ringulreið innan Hvíta hússins. Trump var ósáttur við þá bók, og þá sérstaklega við að Woodward hafi ekki rætt við hann sjálfan. Því samþykkti hann viðtöl fyrir nýju bókina. Þrátt fyrir það skrifaði hann á Twitter í ágúst að nýja bókin yrði fölsk, eins og margt annað sem hann hafi gefið út. Í niðurlagi bókarinnar segir Woodward að eftir viðtölin 18 hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að Trump eigi ekkert erindi í forsetaembættið.