Frestuðu tillögu um úttekt á mat

10.09.2020 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Fulltrúi Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni lagði til á fundi öldungaráðs í vikunni að úttekt yrði gerð á máltíðum sem velferðarsvið borgarinnar býður eldri borgurum upp á úr eldhúsi borgarinnar. Öldungaráð ákvað að fresta afgreiðslu tillögunnar. Síðar sama dag heyrðist gagnrýni á matinn sem eldri borgurum var boðið upp á í hádeginu.

Öldungaráð Reykjavíkur kom saman til fundar á mánudagsmorgunn. Viðar Eggertsson, fulltrúi Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, lagði til að öldungaráð fæli velferðarsviði að gera könnun á máltíðum sem sviðið býður eldri borgurum upp á. Hann vildi að utanaðkomandi, óvilhallir og til þess bærir aðilar væru fengnir til verksins. „Sérstaklega skal skoðað hversu vel máltíðirnar mæta lýðheilsumarkmiðum Embættis landlæknis og eins hvort fjölbreytni á máltíðum hvers dags sé nægileg með tilliti til heilsufars svo sem sykursýki og aðra algenga sjúkdóma meðal eldri borgara.“

Öldungaráð tók ekki afstöðu til tillögunnar heldur frestaði afgreiðslu hennar.

Síðdegis sama dag birti Hringbraut frétt um að boðið hefði verið upp á kaldan plokkfisk frá deginum áður inni í brauðhleifi. Honum var lýst sem ólystugum og blautum. Lýsingin byggði á Facebook-færslu dóttur eldri konu, sú færsla er ekki lengur aðgengileg. Ingibjörg Sverrisdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni sagði í samtali við DV síðar sama dag að hún myndi taka málið upp í öldungaráði. Næsta dag sagði forstöðumaður framleiðslueldhúss á velferðarsviði borgarinnar við Mbl.is að maturinn væri vissulega frá þeim en að hann kannaðist ekki við að hann væri borinn fram með þessum hætti. Það hefði leitt til þess að brauðið hefði blotnað ofan á plokkfisknum og útkoman ekki verið „beint skemmtilegt“.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi