Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Farsóttin á fleygiferð í Danmörku

Mynd með færslu
Reglurnar breytast ört í Danmörku þessa dagana vegna kórónuveirufaraldursins. Mynd: DR
Svo virðist sem kórónuveirufaraldurinn sé kominn á mikið flug í Danmörku. 317 ný tilfelli greindust þar síðasta sólarhringinn og hafa ekki verið fleiri síðan í byrjun apríl. 35 liggja nú á sjúkrahúsi og hefur fjölgað um fimm. Lektor við háskólann í Hróarskeldu segir stjórnvöld hafa verið of sein að bregðast við.

Nýjar reglur um samkomutakmarkanir tóku gildi í átján sveitarfélögum í Danmörku í gær. Fimmtíu mega koma saman og skemmtistaðir og veitingastaðir verða loka á miðnætti. Heilbrigðisráðherra landsins mæltist jafnframt til þess að fólk sleppti öllum ónauðsynlegum veisluhöldum.

Í lagi væri að vera með brúðkaupsveislur og fermingar ef hægt væri að tryggja að einn metri væri á milli fólks. Og forðast ætti í lengstu lög að dansa, syngja og leika háværa tónlist.

Viggo Andreasen, lektor við háskólann í Hróarskeldu, telur að þessar aðgerðir komi hugsanlega of seint til að reyna að hefta útbreiðslu farsóttarinnar. Nýgengi smita á hverja 100 þúsund íbúa síðustu sjö daga sé nú yfir 20 í 35 sveitarfélögum. Sveitarfélögin með þetta hátt nýgengi voru 28 í gær.  

Andreasen segir að það hafi þó verið rétt að slaka á klónni í sumar.  „Þetta var skynsamleg ákvörðun því við þurftum að sjá hversu mikið við gætum opnað  án þess að lenda í vandræðum. En kannski vorum við líka of sein að bregðast við núna.“   

Á vef DR kemur fram að þennan mikla fjölda smita megi líka rekja til þess að mun fleiri sýni séu tekin nú en í vetur eða um 20 þúsund á degi hverjum. Andreasen segir að það sé ekki bara nóg að rekja smit. „Ef að maður smitast þá geta liðið þrír dagar þar til  maður finnur til einkenna og á þeim tíma getur viðkomandi verið að smita út frá sér.“

Smitrakning dugi ekki til að halda faraldrinum í skefjum, það þurfi líka einhverjar takmarkanir. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV