Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ætla að reisa smávirkjun í Garpsdal

10.09.2020 - 17:43
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur auglýst tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykhólahrepps. Stefnt er að því að reisa vatnsaflsvirkjun við Múlá. Raforkan getur dugað allt að hundrað heimilum á ári.

Tillagan felur í sér að skilgreina iðnaðarsvæði undir vatnsaflsvirkjun í Garpsdal en svæðið sem fellur undir nýja skilgreiningu er nú skráð sem landbúnaðarsvæði í gildandi aðalskipulagi. Þá var einnig auglýst tillaga að deiliskipulagi vegna vatnsaflsvirkjunar við Múlaá í landi Garpsdals.

Raforka fyrir allt að hundrað heimili á ári

AB-Fasteignir stefna að því að reisa litla 950 kW fallvatnsvirkjun við Múlaá. Birkir Þór Guðmundsson, annar eigandi AB-Fasteigna hefur verið viðriðinn virkjanir í 20 ár og segir raforkuna, sem verði seld inn á raforkukerfið, duga um 90-100 heimilum á ári. Þar sem hún sé rennslisvirkjun geti hún farið niður í 600 kW á ári en það fari allt eftir veðurguðunum. 

Fyrirtækið á 4 smávirkjanir á Vesturlandi og Vestfjörðum, allt rennslisvirkjanir. Birkir segir gott að vita til þess að það sé orkuvinnsla á Vestfjörðum, bæði aukist raforkuöryggi og jafnvel geti það minnkað fjárfestingarþörf í flutningskerfinu. Litlar virkjanir hafi sannað gildi sitt og mikilvægi í vetur þegar virkilega reyndi á raforkukerfið. 

Langt ferli og miklar rannsóknir að baki

Hann segir fjarri lagi að smávirkjanir þurfi ekki í umhverfismat eins og margir vilji meina. Ferlið við þessa litlu virkjun hafi tekið um þrjú ár og mikil rannsóknarvinna sé að baki. Gera þurfi grein fyrir öllum umhverfisþáttum og þeim áhrifum sem hugsanlega verði af slíkri virkjun.