Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þórólfur: Verðum að vera viss um að bóluefni sé öruggt

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Haraldsson - RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að Íslendingar eins og aðrir verði að vera vissir um að bóluefni séu virk og örugg og rannsóknir eigi að tryggja það eins og hægt er. Bóluefni AstraZeneca er eitt þeirra bóluefna sem Ísland fær gegn kórónuveirunni.

Sóttvarnalæknir segir að upplýsingar liggi ekki fyrir um hvaða aukaverkun þarna hafi komið í ljós hjá AstraZeneca eða hvort hún tengist bóluefninu. 

Þetta bóluefni væri það sem hugsanlega kæmi hingað, er það ekki?

„Eitt af þeim, það eru fleiri bóluefni sem eru í pípunum sem að við erum aðilar að í raun og veru. Jú, vissulega væri þetta áfall ef að þetta yrði til þess að þeir þyrftu að hætta við frekari rannsóknir á bóluefninu en það er ekkert endilega víst að svo verði,“ segir Þórólfur, „og eins og við höfum talað um áður að þá þurfum við bara eins og allir aðrir að vera viss um að bóluefnið sé virkt og sé öruggt og til þess eru þessar rannsóknir á þúsundum og tugum þúsunda manna til að tryggja það eins og hægt er að það séu ekki einhverjar alvarlegar aukaverkanir sem fylgja bólusetningunni.“