Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Sagði Seðlabankann hafa verið í veiðiferð

09.09.2020 - 15:06
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Garðar Gíslason, lögmaður Samherja, fór hörðum orðum um Seðlabankann þegar munnlegur málflutningur fór fram í skaðabótamáli útgerðarfyrirtækisins gegn Seðlabankanum í dag. Hann sagði að Seðlabankinn hefði aldrei haft neinn rökstuddan grun um meint brot félagsins þegar ráðist var í þessar umfangsmiklu aðgerðir. „Seðlabankinn var í veiðiferð.“

Garðar rakti Seðlabankamálið svokallaða í stórum dráttum í ræðu sinni fyrir dómi og yfirferðin var það umfangsmikil að dómarinn Kjartan Björn Björgvinsson kom einu sinni fram með vinsamlega ábendingu um að Garðar væri kominn 20 mínútur fram yfir tímann sem upphaflega hefði verið gert ráð fyrir. 

Undraðist hversu fljótir fréttamenn voru norður

Garðar sagði húsleitina í höfuðstöðvum Samherja fyrir 8 árum hafa verið þá stærstu í sögu Íslands. Hún hefði staðið allan daginn og fréttamenn RÚV hefðu fylgst með framvindu mála, bæði í Reykjavík og á Akureyri. „Þeir voru meira að segja á undan leitarmönnum,“ sagði Garðar og undraðist hversu fljótir fréttamenn hefðu verið norður. Þennan sama morgun hefði Seðlabankinn sent á fréttaveitu út um allan heim að hann hefði farið í aðgerðir vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum.

Garðar sagði aðgerðina hafa verið mikinn hvell og ári eftir húsleitina hefði Seðlabankinn sent kæru til embættis héraðssaksóknara þar sem kært var fyrir brot upp á 79 milljarða sem hann sagði að hefði verið tíu prósent af útflutningsverðmæti í sjávarútvegi.

Segir málarekstur Seðlabankans „fullkomlega tilefnislausan“

Garðar sagði að Seðlabankinn hefði með málarekstri sínum, rannsóknaraðgerðum, framgöngu sinni og stjórnvaldsaðgerðum bakað félaginu tjón. Sá málarekstur sem hefði verið stofnað til af hálfu Seðlabankans hefði verið fullkomlega tilefnislaus. Seðlabankinn hefði staðið fyrir tilefnislausum húsleitum, tilnefnislausum kærum og tilefnislausum stefnum, brotið gegn þagnarskyldu og lagt á stjórnvaldssekt sem átti sér ekki stoð í lögum. „Staðan í dag er að eftir allar þessar aðgerðir er bara núll, ekkert.“

Garðar sagði að í upphafi hefðu engin gögn legið fyrir á hverju grunur Seðlabankans væri byggður. Hann vitnaði til bókar Björns Jóns Bragasonar um gjaldeyriseftirlitið og sagði að af umfjöllun hennar um málið að dæma væri ljóst að Seðlabankinn hefði ekki haft neinn rökstuddan grun um meint brot Samherja. Þá vitnaði hann til þess að Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, hefði látið koma fram í þrígang að stjórnendur Seðlabankans hefðu ekki haft rökstuddan grun um brot þegar húsleitin var látin fara fram. Þetta væri mjög alvarlegt og sýndi að Seðlabankinn hefði verið í veiðiferð á sínum tíma.

Garðar sagði það síðar hafa komið í ljós að aðgerðir Seðlabankans hefðu öðrum þræði verið ætlað að skapa öðrum fordæmi. Aðgerðir Seðlabankans hafi farið fram í kastljós fjölmiðla og bankinn hefði látið vita af þeim um allan heim. Hann sagði starfsmenn RÚV hafa verið mætta á undan starfsmönnum Seðlabankans til að taka myndir af lögreglumönnum í skrúðgöngu inn í fyrirtækið. „Þetta er einsdæmi,“ sagði lögmaðurinn.  

Starfsmenn Samherja spurðir um málið í útlöndum

Allt benti til þess að starfsmenn Seðlabankans hefðu upplýst starfsmenn RÚV um aðgerðirnar og athugasemdakerfin á vefmiðlum hefðu verið fljót að taka fyrirtækin af lífi.  Þá sagði Garðar að honum fyndist sérstakt hversu fljótt fréttir hefðu birst á vefmiðlum auk þess sem Seðlabankinn hefði sent út tilkynningu til 600 viðtakenda. „Það er enn þann í dag, að þegar starfsmenn Samherja mæta á fundi í útlöndum, að þeir eru spurðir út í þetta mál.“

Garðar sagði að allar aðgerðir Seðlabankans hefðu verið til þess fallnar að skaða hagsmuni Samherja. „Þetta var ekkert venjulegt mál, þetta voru gríðarlega alvarlega ásakanir.“  Hann sagði að Samherji færi fram á háar kröfur en ekki væri um það deilt að stofnað hefði verið til þessa kostnaðar til að hrekja alvarlegar ásakanir. Hann sagði sorglegt hvernig Samherjamálið hefði farið með fyrrverandi fjármálastjóra fyrirtækisins sem hefði þurft að láta af störfum vegna veikinda og þótt miskabótakrafan væri há þá væri ekki hægt að horfa fram hjá því að málið hefði laskað orðspor fyrirtækisins.