Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Löngum degi í Samherjamálinu lokið

09.09.2020 - 19:18
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Dagurinn var langur hjá lögmönnum Samherja og Seðlabankans þegar þeir tókust á í skaðabótamáli fyrirtækisins gegn bankanum vegna Samherjamálsins svokallaða. Réttarhöldin hófust klukkan níu í morgun í litlum sal á 2. hæð í húsakynnum Héraðsdóms Reykjavíkur en lauk í aðalsalnum á 1. hæð rétt fyrir klukkan sex í kvöld.

Málin eru tvö; annars vegar skaða-og miskabótakrafa Samherja og hins vegar skaða-og miskabótakrafa forstjórans Þorsteins Más Baldvinssonar. Samtals nema kröfurnar nærri 320 milljónum. 

Dómari vildi halda andrúmsloftinu við stofuhita

Réttarhöldin hófust í morgun á vitnaleiðslum. Nokkur fjöldi fjölmiðlamanna var mættur til að fylgjast með. Salurinn, sem hafði orðið fyrir valinu, reyndist hins vegar of lítill vegna sóttvarnareglna og því var gripið til þess óvenjulega ráðs að hafa salinn opinn til að gera fréttamönnum kleift að fylgjast með. Þeir sátu því í einum hnapp fram á gangi með minna en metra á milli.

Meðal þeirra sem gáfu skýrslu fyrir dómi var Þorsteinn Már. Hann kunni því illa þegar Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður Seðlabankans, spurði hann út í Afríkustarfsemi Samherja.  Barði hann meðal annars í borðið og bað Jóhannes um að fara með rétt með. Kjartan Bjarni Björgvinsson, dómari í málinu, bað menn þá um að halda andrúmsloftinu við stofuhita.

135 milljónir til Jóns Óttars

Jón Óttar Ólafsson, afbrotafræðingur og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður hjá héraðssaksóknara, kom einnig fyrir dóminn. Við réttarhöldin upplýsti Jóhannes Karl að stærsti hluti skaðabótakröfu Samherja mætti rekja til vinnu Jóns Óttars fyrir Samherja eða 135 milljónir. Jón Óttar sagðist ekki vita til þess að fyrirtæki sem sætti rannsókn efndi til svona allsherjarúttektar á starfsemi félagsins.  „Ekki svo ég viti til.“ 

Eftir hádegi var komið að munnlegum málflutningi þar sem lögmennirnir röktu málið. Og eins mátti kannski búast við tók það töluverðan tíma enda málið yfirgripsmikið. 

Ekkert skemmtiefni fyrir einstakling

Garðar Gíslason, lögmaður Samherja, sagði Seðlabankann hafa verið í veiðiferð þegar hann réðst í húsleit í höfuðstöðvum fyrirtækisins fyrir átta árum.  Aldrei hefði verið neinn rökstuddur grunur um meint brot félagsins og það hefði fyrrverandi seðlabankastjóri staðfest í viðtölum. 

Allar aðgerðir Seðlabankans hefðu verið til þess fallnar að skaða hagsmuni Samherja og staðan eftir þær hefði verið núll og ekki neitt.

Þegar hann flutti mál Þorsteins Más sagði Garðar engan vafa á því að margra ára rannsókn Seðlabankans hefði valdið forstjóranum orðsporshnekki.  „Það er ekkert skemmtiefni fyrir einstakling að standa í þessu.“ Aðgerðir Seðlabankans hefðu verið aðför að Samherja.

Hann sagði allt benda til þess að Seðlabankinn hefðu látið starfsmenn RÚV vita af yfirvofandi aðgerðum og enn þann dag í dag væru starfsmenn spurðir út í málið þegar þeir mættu á fundi í útlöndum. „Þetta var ekkert venjulegt mál. Þetta voru alveg gríðarlega alvarlega ásakanir.“ 

Fólk sem vann af bestu getu og vitund

Jóhannes Karl notaði Aserta-málið sem fordæmi fyrir því að Samherji ætti ekki rétt á neinum bótum. Þar hefðu menn þó verið handteknir og eignir frystar. Hann benti á að úttekt sem Seðlabankinn hefði ráðist í árið 2010 hefði bent til þess að mögulega hefði Samherji brotið gegn reglum um skilaskyldu gjaldeyris.

Hann rifjaði jafnframt upp við hvaða aðstæður starfsfólk gjaldeyriseftirlits hefði unnið. Íslenskt þjóðfélag hefði verið farið á hausinn og landinu verið lokað með tilliti til gjaldeyrisútflæðis. Það hefði unnið af bestu vitund og bestu getu og engar sannanir hefðu verið lagðar fram um einhverjar hvatir eða yfirsjónir.

Þá skaut Jóhannes fast á þann málatilbúnað Samherja að það væri einhver sönnun fyrir því að Seðlabankinn hefði lekið upplýsingum um fyrirhugaða húsleit til fjölmiðla að forsætisráðherra hefði kært lekann.  Og fannst slíkar staðhæfingar koma úr hörðustu átt.

Búast má við dómi í málinu eftir fjórar vikur.