Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Lögmaður Seðlabankans notaði Aserta-málið sem fordæmi

09.09.2020 - 16:34
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður Seðlabankans, sagði varnir bankans af ýmsum toga og það væri rakið í greinargerð bankans. Í stuttu málið krefðist bankinn sýknu. Hann benti á að það hefðu aldrei fallið neinir efnislegar dómar um efni rannsóknar Seðlabankans og varði drjúgum tíma í að ræða Aserta-málið svokallaða.

Jóhannes spurði hvenær ætti að dæma bætur þegar rannsókn missti marks. „Það mun alltaf gerast að menn verða sýknaðir.“ Þeir sem sættu þvingunaraðgerðum ættu rétt bótum ef ekki hefði verið sýnt fram á sök. 

Jóhannes rifjaði upp mál fyrrverandi framkvæmdastjóra SÍF sem hefði verið ákærður fyrir vanrækslu í starfi og fjárdrátt en verið sýknaður. Hann hefði þó ekki átt rétt á bótum. Og mál hjúkrunarfræðings sem hefði verið ákærður vegna sjúklings sem lést en var sýknaður. Hún hefði sömuleiðis ekki átt rétt á neinum bótum.

Sagði Aserta-málið stytta mönnum leið

Jóhannes fór einnig yfir Aserta-málið þar sem hefðu komið fram grunsemdir um brot á reglum um gjaldeyrislög. Þar hefðu þrír af fjórum sakborningum verið handteknir og nánast allar eignir eins sakbornings verið kyrrsettar. 

Í Samherjamálinu hefði enginn verið handtekinn, engar eignir verið haldlagðar og ekki verið haldinn neinn blaðamannafundur með stórkarlalegum yfirlýsingum. Hann hefði þó vissulega skilning á þeim miklu tilfinningum sem Samherja-málið hefði vakið hjá starfsmönnum félagsins en Aserta-málið stytti mönnum svolítið leið.

Úttekt gaf til kynna að Samherji hefði mögulega brotið reglur

Jóhannes lýsti því hver tildrög rannsóknarinnar voru á sínum tíma. Árið 2010 hafi byrjað sérstakt eftirlit með útflutningsfyrirtækjum og gerð hafi verið úttekt á nokkrum. Þetta hafi síðan verið borið saman við gögn frá tollstjóranum og allt miðað við hvernig erlendum gjaldeyri var skilað. Þessi úttekt hafi gefið til kynna að Samherji hefði mögulega brotið gegn reglum um skilaskyldu gjaldeyris.

Jóhanns vitnaði til húsleitarheimildar sem Seðlabankinn fékk hjá Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir húsleitirnar 2012. Þar hefði komið fram að bankinn teldi nauðsynlegt að rannsaka hversu umfangsmikið meint brot Samherja væri. Dómari hefði sagt í úrskurði sínum að miðað við framlögð gögn væru ríkar ástæður til að ætla að viðkomandi fyrirtæki hefðu gerst brotleg við lög um skilaskyldu gjaldeyris.

Jóhannes sagði eðli upplýsinganna hafi verið þannig að ekki væri hægt að reiða sig á það að fá öll gögn upp í hendurnar og þetta væri ekki sagt Samherja til hnjóðs heldur væri þetta bara svona í málum eins og þessum.  Ekki væru til nein vitni heldur eingöngu hægt að byggja málið á bókhaldi og öðru slíku.

Engin sönnunargögn fyrir því að starfsmenn hafi látið fréttamenn vita

Jóhannes sagði að þegar starfsmenn Seðlabankans og lögreglan hefðu komið í húsleit hefðu þar verið komnir fréttamenn. Og hann tók undir að það væri fáránlegt ef opinberir starfsmenn hefðu gefið fréttamönnum einhverjar upplýsingar. Um það hefði ekki verið upplýst í þessu máli og Seðlabankinn hefði hafnað því og engin sönnunargögn væru fyrir því í málinu. Reynt hefði verið að upplýsa þetta atriði af hálfu bankans, meðal annars með því að skoða tölvupósthólf starfsmanna. „Við getum ekki lagt þetta til grundvallar í dómsmáli sem sönnuðum hlut.“

Gögn um þjónustusamning við Samherja

Jóhannes sagði þrjú atriði hafa verið til rannsóknar, stærst þeirra hefði verið hvort erlend félög Samherja gætu talist innlendir aðilar. „Og hverjum datt það í hug? Það var löggjafanum.“  Þar undir væru 67 milljarðar.   

Aðalmálið væri fyrirtækið Katla Seafood sem hefði selt sjávarafurðir fyrir 55 milljarða sem hefðu ekki skilað sér til Íslands og hvort það hefði verið undir íslenskri stjórn. 

Enginn starfsmaður hefði verið hjá fyrirtækinu en það væru gögn um þjónustusamning við Samherja. Einu aðilarnir í fyrirtækinu væru þrír stjórnarmenn; tveir kýpverskir lögmenn og svo þriðji maðurinn sem hann kynni engin deili á. Seðlabankinn hefði haft grun um að Samherji stýrði þessu félagi og Jóhannes sagði að væntanlega hefði þetta eina brot verið túlkað sem meiriháttar, jafnvel þótt rekja mætti það gáleysis eða yfirsjónar.

Verðið mögulega skeikað um 270 milljónir

Hitt atriði hefði snúið að skilaskyldu fyrirtækja á Íslandi, meðal annars hjá fyrirtæki  sem nefndist Axel ehf. Og þriðja atriði hefði snúið að milliverðlagningu sem hefði snúist um hvort innan samstæðu væri afurð seld á réttu verði.  Seðlabankinn hefði rannsakað þetta gaumgæfilega og út úr rannsókninni hefði komið að mögulega hefði verðið sem greitt var fyrir innan fyrirtækisins skeikað um 270 milljónir. 

Jóhannes gerði athugasemdir við það vinnuframlag  sem Samherji væri að krefjast að fá greitt. Hann nefndi þar sérstaklega þátt Jóns Óttars Ólafssonar, fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns hjá héraðssaksóknara.  Sömu reikningar væru í einhverjum tilvikum tvisvar og í öðrum næðu þeir yfir tímabil þar sem ekkert var í gangi varðandi Samherjamálið.