Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Jón Óttar fékk 135 milljónir fyrir Seðlabankamálið

09.09.2020 - 12:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jón Óttar Ólafsson, afbrotafræðingur og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður, hefur starfað fyrir Samherja frá árinu 2013 og ráðgjafastofa hans rukkaði útgerðarfélagið um 135 milljónir króna fyrir vinnu sína sem tengdist rannsókn Seðlabanka Íslands á meintum gjaldeyrislagabrotum félagsins. Þetta er stærsti hluti 305 milljóna króna skaðabótakröfu Samherja á hendur bankanum, að því er fram kom í máli lögmanns bankans fyrir dómi í dag.

Jón Óttar bar vitni nú undir hádegi við aðalmeðferð skaðabótamáls Samherja gegn Seðlabankanum vegna þeirrar rannsóknar, aðgerða sem ráðist var í vegna hennar og fimmtán milljóna króna sektar sem lögð var á félagið en síðan felld niður.

Segist hafa komist að því að ásakanir Seðlabankans væru óljósar

Jón Óttar sagði frá því að hann hefði verið ráðinn þegar Samherji var að leita að manni sem hefði reynslu af því að greina gögn og vinna með lögmönnum. Hann hafi fljótt komist að því að ásakanir Seðlabankans hafi verið mjög óljósar. Hann hafi þurft að ferðast töluvert til útlanda í þessari vinnu, safna gögnum víða að úr heiminum, fá tölvupóstþjónaafrit frá dótturdótturdótturfélögum Samherja erlendis, taka viðtöl og safna upplýsingum um verkferla. Þá hafi hann skrifað greinargerðir til lögmanna á Íslandi og útskýrt fyrir þeim hvernig þessum fyrirtækjum erlendis hefði í raun og veru verið stjórnað.

Hann tók dæmi um starfsemi Samherja á Las Palmas á Kanaríeyjum. „Það kom í ljós að tölvupóstarnir sem Seðlabankinn byggði á og höfðu skilað sér til Íslands voru bara eitt prómill af þeim póstum sem voru til þarna,“ sagði Jón Óttar. „Það var mjög mikill súbstans í þessum rekstri þarna úti.“

Undir Jón Óttar voru bornir margir tugir reikninga sem hann gaf út á Samherja. Það tók tímann sinn fyrir hann að lesa sig í gegnum bunkann en staðfesti að lokum alla reikningana.

Samherji hafi þurft utanaðkomandi aðstoð til að verjast ásökunum

Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður Seðlabankans, spurði Jón Óttar hvort í starfi hans hefði falist að gera einhvers konar allsherjarúttekt á starfsemi Samherja, dótturfélögum og verkferlum. Jón Óttar svaraði því að svo hefði ekki verið - til að skilja ásakanir Seðlabankans hefði einfaldlega þurft að setja sig gaumgæfilega inn í málið. „Það er miklu erfiðara, þegar útreikningar eru rangir, að verjast þeim,“ útskýrði hann og bætti því við að málið hafi tekið mikið á starfsfólk Samherja, sem hafi átt erfitt með að ná fókus til að setja sig inn í ásakanirnar og verjast þeim. Því hafi þurft utanaðkomandi aðstoð.

„Hefur það einhvern tímann gerst að fyrirtæki sem sætir rannsókn efni til svona allsherjarúttektar á starfsemi félagsins og verji til þess svona fjármunum?“ spurði Jóhannes Karl. „Ekki svo ég viti til,“ svaraði Jón Óttar, sem taldi þetta engu að síður eðlilegan tilkostnað.

Segir félaginu ekki hafa verið stýrt frá Íslandi

Jóhannes Karl spurði Jón Óttar líka, í ljósi þekkingar hans á málefnum Samherja eftir alla hans vinnu fyrir félagið, hvað hann vissi um Kýpurfélagið Kötlu Seafood Ltd. Jóhannes Karl spurði hvort þar hafi verið einhverjir starfsmenn – Jón Óttar taldi að þeir hefðu verið sárafáir, ef einhverjir. Þá sagðist hann ekki vita hvort erlendis stjórnarmenn félagsins hefðu komið eitthvað nálægt rekstri þess.

Jón Óttar sagði að með þessu væri ýjað að því að félaginu hafi í raun verið stýrt frá Íslandi, en rannsókn hans hafi leitt annan sannleika í ljós: Félaginu hafi verið stýrt frá öðrum löndum utan Kýpur, en ekki Íslandi.

55 milljarða tekjur komi frá strandveiðum og sölu í Afríku

Jóhannes Karl spurði um 55 milljarða tekjur félagsins og hvaðan þær væru upprunnar. Jón Óttar sagði að allt væri þetta vegna fiskveiða við strendur Afríku og sölu á þeim sama fiski innan Afríku. Jóhannes Karl spurði einnig um félagið Axel ehf., sem áður hét Katla Seafood ehf. og er skráð hér á landi. Jóhannes vildi vita hvort rétt væri að þar hefði myndast 14 milljarða hagnaður sem ekki hefði skilað sér til landsins nema að litlu leyti. Jón Óttar sagði að þetta væri misskilningur en útskýrði það ekki í þaula.

Samherji hefur vísað til þess að hafa sent rannsóknarlögreglumann til Namibíu til að kanna hvort eitthvað hafi farið aflaga í starfsemi félagsins þar. Þar er átt við Jón Óttar Ólafsson.

Uppfært:
Eigandi lögmannsstofunnar Juralis vill koma því á framfæri að hún tengist ekki Samherja, en að Jón Óttar hafi um skeið verið með skrifstofuaðstöðu hjá lögmannsstofunni og þá kallað fyrirtæki sitt Juralis ráðgjafastofu slhf.
 Nafninu hefur síðan verið breytt.