Íslandsmeistararnir unnu bikarmeistarana

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Íslandsmeistararnir unnu bikarmeistarana

09.09.2020 - 19:44
Heil umferð er leikin í úrvalsdeild kvenna í fótbolta í dag. Þremur leikjum er þegar lokið, FH vann Fylki 3-1, KR burstaði ÍBV, 3-0 og á Selfossi voru Íslandsmeistararnir í heimsókn þar sem Valur náði sér í stigin þrjú á lokamínútum leiksins.

 

Topplið Vals sótti Selfyssinga heim, en þessi lið mættust í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins á sama stað síðasta fimmtudagskvöld. Þá hafði Selfoss betur, en á 12. mínútu leiksins í kvöld sendi Elín Metta Jensen á Hlín Eiríksdóttur í liði Vals. Hlín afgreiddi boltann í markið og kom Val þar með yfir, 1-0. Þannig stóðu leikar í hálfleik en sautján mínútum fyrir leikslok var brotið á Tiffany McCarty leikmanni Selfoss innan vítateigs Vals og Selfyssingar fengu því vítaspyrnu. McCarty fór sjálf á vítapunktinn. Hún skoraði úr vítinu og jafnaði metin í 1-1. Jafntefli hefði farið langt með að gera út um titilvonir Vals. Það var því lítið annað fyrir Hlíðarendaliðið að gera en að skora annað mark. Og í uppbótartíma leiksins gerði Hlín Eiríksdóttir einmitt það. Hlín tryggði Val þar með 2-1 sigur og Valur er því áfram í hörku baráttu við Blika um titilinn.

FH sem var á botni deildarinnar fékk Fylki í heimsókn. Fylkir sem var í 3. sæti deildarinnar fékk þó ekki rönd við reist á 26. mínútu þegar Phoenetia Browne skoraði fyrir heimakonur og kom FH þar með 1-0 yfir. Þetta mark Fimleikafélagsins virtist kveikja í liðinu, því strax þremur mínútum síðar hafði Helena Ósk Hálfdánardóttir bætt öðru marki við fyrir FH og staðan þar með orðin 2-0. Fylkiskonur höfðu þó ekki gefist upp og á 67. mínútu sá Bryndís Arna Níelsdóttir um það að minnka muninn fyrir Árbæinga í 2-1. Vonin varð þó fljótlega aftur veik fyrir Fylkiskonur því á 72. mínútu braut Cecelía Rán Rúnarsdóttir markvörður Fylkis á Browne sem var komin í gegnum vörn Fylkis. Vítaspyrna og það var Andrea Mist Pálsdóttir sem sá um að taka vítið. Hún skoraði og kom FH þar með í 3-1. Þetta mark tryggði sigurinn endanlega fyrir FH sem fékk þar með þrjú mikilvæg stig í botnbaráttunni og lyfti sér raunar upp úr fallsæti.