Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvetja ráðherra til að opna á netverslun með áfengi

09.09.2020 - 22:04
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Samtök íslenskra handverksbrugghúsa skora á dómsmálaráðherra að leggja fram frumvarp á komandi þingi um að opna fyrir innlenda netverslun með áfengi. Formaður samtakanna segir að verði málið samþykkt geti það bjargað bæði fyrirtækjum og störfum um land allt.

 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra kynnti í byrjun árs drög að frumvarpi sem heimilar brugghúsum og innlendum netverslunum að selja áfengi í smásölu án aðkomu ÁTVR. Ráðherra ætlaði að leggja frumvarpið fram á vorþingi en ekkert varð úr því vegna Covid.

Samtök íslenskra handverksbrugghúsa hafa nú skorað á ráðherra að taka málið upp að nýju. Tuttugu og tvo brugghús standa að samtökunum en mörg þeirra sjá fram á erfiðan vetur út af Covid.

„Við stöndum frammi fyrir því að Covid hefur haft veruleg áhrif hjá okkar félagsmönnum. Erlendir gestir koma ekki lengur til landsins og það er útlit fyrir það að í haust og vetur þá muni draga úr ferðalögum Íslendinga innanlands,“ segir Sigurður P. Snorrason formaður Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa.

Sigurður segir að núverandi kerfi sé bæði of dýrt og of flókið og henti litlum brugghúsum illa. Lagalegt jafnræði á sviði netverslunar og auknir möguleikar brugghúsa til beinnar sölu gæti komið í veg fyrir uppsagnir og rekstrarvanda.

„Við erum í mörgum smærri sveitarfélögum og brothættum byggðum. Hjá okkur starfa um 200 manns, bæði í fullu starfi og í hlutastarfi, og það er mikilvægt að standa vörð um þau störf líka,“ segir Sigurður.

Ráðherra segist í svari við fyrirspurn fréttastofu vera að íhuga málið og útilokar ekki að leggja frumvarpið fram að nýju með breyttu sniði. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV