Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hluthafar í Icelandair Group samþykktu hlutafjárútboð

Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Hluthafafundur Icelandair Group á Hótel Nordica samþykkti hlutafjárútboð félagsins á fimmta tímanum í dag. Það hefst í næstu viku.

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segist hafa átt von á þessari niðurstöðu. „Hluthafar samþykktu einróma tillögur félagsins um hlutafjárhækkun og að félagið hafi heimild til þess að gefa út áskriftarréttindi. Þannig að við höldum áfram í þessu verkefni sem við höfum verið í,“ sagði Bogi Nils í samtali við fréttastofu eftir að hluthafafundinum lauk.

„Við vorum bjartsýn á að hluthafar myndu samþykkja tillögu stjórnar og það var niðurstaðan,“ segir Bogi Nils. Hlutafjárútboðið hefur verið í undirbúningi síðustu vikur. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa þegar hitt hugsanlega fjárfesta. „Við höldum því verkefni fram að útboði sem á ð fara fram á miðvikudag og fimmtudag í komandi viku.“

Spurður hvort hann telji lífeyrissjóði ætla að taka þátt í hlutafjárútboðinu segir Bogi: „Ég veit það ekki, ég vonast eftir því. Þeir eru auðvitað mikilvægur aðili í fjárfestaumhverfinu á Íslandi.“ Hann segir að lífeyrissjóðir séu meðal þeirra aðila sem forsvarsmenn fyrirtækisins hafi þegar hitt.

Alþingi samþykkti á dögunum að veita Icelandair ríkisábyrgð á lánalínum félagsins. Ríkisábyrgðin er upp á 15 milljarða króna og nær til flugrekstrarhluta Icelandair Group.

Þá hefur flugfélagið náð samkomulagi við Íslandsbanka og Landsbankann um sölutryggingu hlutafjárútboðsins. Samkvæmt samkomulaginu munu bankarnir kaupa nýtt hlutafé að upphæð allt að sex milljörðum króna.