Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fyrrverandi fjármálastjóri óvinnufær vegna ásakananna

09.09.2020 - 14:13
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Fyrrverandi fjármálastjóri Samherja segist meira og minna hafa verið óvinnufær frá árinu 2012 vegna andlegra erfiðleika sem fylgdu ásökunum Seðlabankans í hans garð. Hann kom fyrir dóm við aðalmeðferð í skaðabótamáli Samherja gegn Seðlabankanum í morgun og lýsti því að hann hefði hætt fljótlega eftir að rannsókn Seðlabankans hófst vegna þess að hann hefði þá verið kominn á mjög slæman stað andlega.

Honum hafði verið gefið að sök að hafa ekki skilað gjaldeyri til landsins í samræmi við skyldur í gjaldeyrislögum. Hann hafði þá verið fjármálastjóri Samherja frá 2005.Samherji byggir skaðabótakröfu sína meðal annars á því að fyrirtækið eigi rétt til bóta fyrir laun fjármálastjórans í veikindaleyfi, enda megi rekja leyfið beint til aðgerða Seðlabankans. Í máli mannsins fyrir dómi kom fram að ásakanirnar hefðu tekið mjög á hann, hann hefði síðan verið hjá sálfræðingi og á geðlyfjum. Hann klökknaði þegar Kjartan Bjarni Björgvinsson dómari spurði hann hvort hann hefði íhugað að höfða sjálfur bótamál gegn Seðlabankanum og sagðist ekki hafa gert það.

Valtýr hissa á fundi með ríkislögreglustjóra

Fyrir dóminn kom einnig Valtýr Sigurðsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, sem bar um það að á fundi með honum, ríkislögreglustjóra og starfsmanni gjaldeyriseftirlits Seðlabankans hefði sá síðastnefndi fært í tal efasemdir um að málatilbúnaður Seðlabankans stæðist skoðun, vegna þess að refsiheimildir skorti í gjaldeyrislögin. Á þeirri forsendu var málið á endanum fellt niður hjá saksóknara og sekt Seðlabankans jafnframt afturkölluð.

Valtýr hélt fram að Haraldur Johannessen, þáverandi ríkislögreglustjóri, hefði ekki viljað heyra á það minnst sem Seðlabankastarfsmaðurinn léði máls á, að fallið yrði frá málinu á þessum tíma – vegna þess að Haraldur teldi að það hefði litið illa út fyrir embættið. Valtýr segist hafa orðið hvumsa og tilkynnt Sérstökum saksóknara um þessar efasemdir. Um þetta er þó deilt í málinu. Fram kom í dómnum að Haraldur hefði sjálfur aðra sögu að segja.

Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður Seðlabankans, spurði Valtý að síðustu hvort hann væri starfandi lögmaður um þessar mundir, sem Valtýr játti. Jóhannes spurði hann þá við hvaða stofu hann starfaði. Lex, var svarið, en Garðar Gíslason, lögmaður Samherja í málinu, var lengi einn af aðaleigendum Lex.

Sannfærandi rök Seðlabankans um stjórn dótturfélaganna

Finnur Vilhjálmsson, saksóknari hjá Héraðssaksóknara en áður sérstökum saksóknara, kom jafnframt fyrir dóminn og var meðal annars spurður um ályktun í endursendingarbréfi sérstaks saksóknara, sem var sent þegar málið var endursent Seðlabankanum og taldist ekki tækt til refsimeðferðar. Ályktunin sem Finnur dró í bréfinu var á þá leið að þau rök Seðlabankans væru sannfærandi að erlendu félög Samherja, að minnsta kosti sum þeirra, hefðu í raun lotið íslenskri stjórn. Finnur tók fram að engu hefði hins vegar verið hægt að slá föstu um það hverjir þeir stjórnendur hefðu verið og hvort einhverjir þeirra bæru mögulega refsiábyrgð í málinu.

Að loknum vitnisburði Finns var tekið hádegishlé og máflutningur lögmannanna tveggja hófst svo klukkan 13.20, að þessu sinni í dómsal 101, en fyrir hádegi var réttað í sal 202 sem aðeins fáir komast að í og þurftu fréttamenn að sitja við opna dyragættina og freista þess að heyra það sem fram fór. Að loknum málflutningi hefst aðalmeðferð í hinu málinu, sem Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, höfðaði persónulega gegn Seðlabankanum. 

Fréttin hefur verið uppfærð.
Í upphaflegri útgáfu kom fram að Finnur Vilhjálmsson hefði ekki heyrt af athugasemdum sem Valtýr Sigurðsson segist hafa gert við sérstakan saksóknara. Þetta er rangt – þegar Finnur var spurður um athugasemdir ríkissaksóknara var átt við annað atriði á síðari stigum.