Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Framlengja ekki gjaldeyrissamkomulag við Seðlabankann

09.09.2020 - 08:14
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Lífeyrissjóðirnir ætla ekki að framlengja samkomulag sitt við Seðlabanka Íslands um að standa ekki í erlendum fjárfestingum. Samkomulag um hlé á gjaldeyriskaupum lífeyrissjóða var gert í mars vegna kórónuveirufaraldursins og það framlengt í júlí.

Frá þessu er greint í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag. Tilgangur samkomulags Seðlabankans við lífeyrissjóðina var að bregðast við miklum samdrætti útflutnings í heimsfaraldrinum og stuðla að stöðugleika á gjaldeyrismarkaði.

Ekki er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir ráðist í stórfelld gjaldeyriskaup þegar samkomulagið rennur út í næstu viku, en það gæti sett þrýsting á gengi íslensku krónunnar.

Gengi krónunnar hefur lækkað um um það bil 20 prósent gagnvart evru það sem af er ári. Seðlabankinn hefur spyrnt á móti frekari gengisveikingu með gjaldeyrissölu úr gjaldeyrisforða sínum. Hrein gjaldeyrissala bankans frá upphafi faraldursins er að jafnvirði 33 milljarða íslenskra króna.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV