Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki hægt að fara Demantshringinn allt árið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki verður full vetrarþjónusta á nýjum Dettifossvegi í vetur og því ekki hægt að aka Demantshringinn allt árið. Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segir að vetrarumferð ferðamanna sé sífellt að aukast og beinlínis hættulegt ef ekki eigi að moka veginn í vetur.

Demantshringurinn var opnaður um síðustu helgi en lokaáfangi hans, nýr Dettifossvegur, er nánast tilbúinn. En það lítur ekki út fyrir að öll þessi nýja hringleið verði opin í vetur því ekki verður veitt fjármagni til snjómoksturs á Dettifossvegi.

Vertarþjónustan fylgi eftirspurn

„Til að byrja með erum við auðvitað ekki með fjármagn til þess að fara í þetta,“ segir segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra. „Ekki frekar en við vorum með á Þingvöll, Gullfoss og Geysi, þegar við auglýstum Ísland allt árið. Þá var mokað einu sinni eða tvisvar í viku. Smátt og smátt höfum við aukið þjónustuna eftir eftirspurn og það munum við auðvitað gera hér líka.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Ráðherrar opnuðu Demantshringinn 6. september

Hætta geti skapast ef ekki er mokað

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir eftirspurnina þegar til staðar. „Hér erum við til dæmis með Dettifoss, sem er aflmesti foss Evrópu og það er auðvitað galið að við getum ekki komist að honum allt árið.“ Vetrarumferð ferðamanna á eigin vegum um þetta svæði sé sífellt að aukast og við því þurfi að bregðast. „Vegna þess að það er auðvitað bara hættulegt staða að ætla mönnum að fara hérna án þess að það sé verið að sinna veginum,“ segir hún.

Vill bíða þar til ástandið færist í eðlilegra horf

En Sigurður vill bíða þar til ástandið í ferðaþjónustunni færist í eðlilegra horf. Hæpið sé að það þurfi vetrarþjónustu á Dettifossvegi eins og staðan er nú. „Ég held að það sé nokkuð augljóst, þegar við horfum til næstu mánaða, að það verður einfaldlega ekki þörf á því. Og það er gáfulegra að forgangsraða peningunum með öðrum hætti.“