Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Eðlilegt að staldra við í bóluefnarannsóknum

09.09.2020 - 09:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson
Magnús Gottfreðsson,læknir og sérfræðingur í smitsjúkdómum segir það ekki setja alvarlegt strik í reikningin að lyfjaframleiðandinn AstraZeneca hafi stöðvað frekari tilraunir með bóluefni við Covid-19.

Tilraunum  var frestað vegna óútskýrðra veikinda eins sjálfboðaliðanna. Óháð nefnd vísindamanna fer yfir öll gögn rannsóknarinnar.

Magnús segir það ekki vera óvenjulegt heldur sé það í samræmi við framgang rannsókna á þessu sviði að ef einhver teikn eru uppi um óvænt atvik eða hluti sem ekki sé hægt að skýra sé sjálfsagt að staldra við og fara yfir gögn málsins. Á meðan ekki sé komin niðurstaða sé beðið með að taka inn nýja sjúklinga.

„Þetta er náttúrulega mjög stór rannsókn og fjölmenn rannsókn. Seinast þegar ég frétti þá voru komnir inn 17.000 þátttakendur svo það má alveg gera ráð fyrir að eitthvað gerist hjá þessum stóra hópi.“ segir Magnús.

Tefur ekki endilega tilkomu bóluefnis

Hann telur að stöðvunin þurfi ekki endilega að hafa áhrif á tímasetningar bóluefnisins.

„Það er ómögulegt að segja, það fer eftir því hvað athugunin leiðir í ljós og hvort að það þarf að stöðva rannsóknina í lengri tíma. Það liggur ekki fyrir enn sem komið er, en ég á síður von á því að þetta muni tefja hana verulega, nema að menn telji að þetta sé beinlínis tengt bóluefninu og sé mjög alvarlegs eðlis en það finnst mér mjög ósennilegt. Það er eitthvað sem þarf að fara mjög vel yfir. “ segir Magnús.

Mega ekki láta kappið hlaupa með sig í gönur

Mikil eftirvænting er eftir því að fá bóluefni á markað. Stjórnvöld víða um heim eru óþreyjufull og segir Magnús að sumir vilji að hlutirnir gangi hraðar fyrir sig en raunin er.

„En um leið orkar það tvímælis að menn fari að stytta sér leið. Þarna er verið að reyna að feta þennan faglega milliveg að gæta allra þessara sjónarmiða og passa sig að fara ekki of geyst og hleypa ekki efni sem er órannsakað á markað nema að það hafi verið rannsakað með fullnægjandi hætti. Þetta eru allt sjónarmið sem togast á og þetta er algjörlega í samræmi með það sem lagt er upp með í rannsóknum af þessum toga.“ segir Magnús.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV