Dramatískustu augnablik Kardashian fjölskyldunnar

Mynd með færslu
 Mynd: Kim Kardashian - Instagram

Dramatískustu augnablik Kardashian fjölskyldunnar

09.09.2020 - 12:44
Í gærkvöld tilkynnti Kardashian-Jenner fjölskyldan að væntanleg þáttaröð af raunveruleikaþætti þeirra, Keeping Up with the Kardashians, yrði sú síðasta. Þættirnir hafa verið á dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar E! í þrettán ár og margir munu eflaust sakna þess að fá innlit inn í líf þessarar margrómuðu fjölskyldu.

Í tilkynningu fjölskyldunnar segir að þau séu þakklát fyrir alla þá sem hafi horft á þættina öll þessi ár í gegnum góða tíma og slæma, hamingju og tár, öll samböndin og börnin. Þegar síðasta þáttaröðin kemur út á næsta ári verða þær samtals orðnar tuttugu á fjórtán árum en auk þeirra hafa fjölmargar auka þáttaraðir sprottið út frá móðurskipinu. Þar má til dæmis nefna Kourtney and Kim Take Miami, Kourtney and Khloé Take the Hamptons, Life of Kylie og Flip it Like Disick

Fyrsta þáttaröðin fór í loftið í október 2007 eftir að Kris Jenner, móðir Kardashian-Jenner systranna, lýsti yfir vilja sínum til að gera sjónvarpsþátt þar sem hún kæmi fram ásamt fjölskyldu sinni. Sjónvarpsmaðurinn og framleiðandinn Ryan Seacrest ákvað að stökkva á hugmyndina og úr urðu þættirnir Keeping Up with the Kardashians. Megináhersla var lögð á líf systranna Kim, Khloé og Kourtney, sem voru lítið þekktar þá, í það minnsta miðað við hversu þekktar þær eru í dag. Kim hafði þó vakið athygli heimsbyggðarinnar í febrúar 2007, þegar kynlífsmyndbandi af henni og söngvaranum Ray J var lekið. 

Einnig var náið fylgst með lífi Kris og Caitlyn Jenner, dætra þeirra Kendall og Kylie sem voru þá aðeins tólf og tíu ára gamlar og bróður systranna, Rob. Áhorfendur áttu svo á næstu árum eftir að sjá systkinin vaxa úr grasi, eignast börn, gifta sig, skilja, gifta sig aftur, stofna fyrirtæki, ferðast og verða frægari og frægari með hverri þáttaröðinni. Kim segir sjálf í tilkynningu sinni á Instagram að án þáttanna væri hún ekki þar sem hún væri í dag, þættirnir hefðu gert fjölskylduna að því sem hún sé í dag og að hún verði að eilífu skuldug þeim sem áttu hlutverk í því að móta og breyta ferlum þeirra og lífum um ókomna tíð. 

Á fjórtán árum hefur heilmikið gerst í lífi fjölskyldunnar og áhorfendur hafa fengið nóg af goðsagnakenndum augnablikum sem munu án efa lifa með þeim lengi. Netverjar voru ekki lengi að taka við sér eftir fréttir gærkvöldsins og minntust nokkurra af bestu (og dramatískustu) augnablikum þáttanna. 

Til að mynda minntust margir þess þegar Kim fór að gráta eftir að hafa týnt demantseyrnalokknum sínum í sjónum en Kourtney minnti hana á að það væri fólk þarna úti sem væri við dauðans dyr. Raunar minntust margir „grátaugnablika“ Kim...sem hafa verið nokkur. 

Aðdáendur munu þá sakna þess að fá að sjá systurnar rífast um allt mögulegt og ómögulegt. 

Kris Jenner, móðir systranna, hefur líka átt sín áhugaverðu augnablik. 

Svo má ekki gleyma því þegar þær tóku sig til og hermdu eftir hvor annarri. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Kim og Kylie ögra í áður óséðu tónlistarmyndbandi Tyga

Kim komið að frelsun sautján fanga

Menningarefni

Eggið sem braut Instagram

Menningarefni

Jenner-systur gagnrýndar fyrir tískuboli