Dómsmálaráðuneytið vill verja Trump

Mynd með færslu
 Mynd: julieannesmo - Wikipedia
Bandaríska dómsmálaráðuneytið krefst þess að fá að verja Donald Trump Bandaríkjaforseta í máli dálkahöfundarins E. Jean Carroll gegn honum. Carroll sakar Trump um meiðyrði eftir að forsetinn sagði hana ekki vera sína týpu, þegar hann svaraði fyrir ásakanir hennar um að hann hafi reynt að þröngva sér á hana. 

Hingað til hefur lögmaðurinn Marc Kasowitz séð um málið fyrir hönd forsetans. Dómsmálaráðuneytið, sem alla jafna á að vera tiltölulega óháð Hvíta húsinu, sendi beiðni til dómara málsins um að ráðuneytið taki við málinu af Kasowitz. Þar segir að Trump hafi verið í embætti forseta þegar málshöfðunin barst. Beðið er um að málið verði fært úr ríkisdómstól í alríkisdómstól. 

CNN hefur eftir lagaprófessornum Steve Vladeck úr Texas-háskóla að inngrip á borð við þetta sé verulega óvenjulegt. Líkur séu á að málið verði látið niður falla þar sem ekki er hægt að kæra Bandaríkjastjórn fyrir meiðyrði.  Í síðasta mánuði sagði dómari við ríkisdómstól að Trump gæti ekki beitt fyrir sig friðhelgi í málinu. 

Lögmaður Carroll, Roberta A. Kaplan, segir í yfirlýsingu að hún sé hneyksluð á afskiptum ráðuneytisins. Tilraun forsetans til þess að nota stjórnina til þess að forðast ábyrgð á eigin misferli aljgörlega án fordæma. Það sýni hversu langt hann sé tilbúinn að teygja sig til þess að forð sannleikanum frá því að koma í ljós.

Carroll sakaði Trump um að hafa reynt að þröngva sér á hana í verslun í miðbæ Manhattan um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Hún segir hann hafa beðið hana um ráð við nærfatakaup á aðra konu, og hafi í gríni beðið hana um að máta fyrir sig. Þegar hún fór í mátunarklefann elti Trump hana, ýtti henni að veggnum og þröngvaði sér að henni að sögn Carroll. Hún segist hafa náð að ýta honum frá sér með erfiðismunum. Trump neitar því að þetta hafi gerst, segir Carroll bera fram algjörar lygar og þvælu. Þá sagði hann jafnframt að hún væri ekki týpan hans.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi