Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Þurfa að hreinorkuvæða tvo þriðju bílaflotans á 10 árum

08.09.2020 - 09:24
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Markmið stjórnvalda um orkuskipti í vegasamgöngum samkvæmt Parísarsamkomulaginu kalla á um það bil 300 MW og fyrir árið 2030 þurfa tveir af hverjum þremur bílum á götunum að vera orðnir hreinorkubílar. Þetta eru niðurstöður nýrrar greiningar á vegum Samorku um orku- og aflþörf fyrir orkuskipti í samgöngum hér á landi fyrir árið 2030.

Niðurstöðurnar benda til þess að með þessu myndi útblástur gróðurhúsalofttegunda í vegasamgöngum dragast saman um 365.000 tonn eða 37 prósent á tímabilinu 2018-2030. Með minni eldsneytiskaupum gæti þjóðarbúið sparað 20-30 milljarða á hverju ári og hvert heimili í kringum 400 þúsund krónur. 

Í tilkynningu frá Samorku kemur fram að samkvæmt greiningunni þyrfti 600 MW til að hreinorkuvæða allan bílaflotann á landinu fyrir árið 2030 og 1.200 MW til að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir hreina orkugjafa í öllum samgöngum; vegasamgöngum, innanlandsflugi og haftengdri starfsemi. 

Þá segir að með innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum megi framleiða endurnýjanlegt eldsneyti eins og vetni, metan, metanól og lífdísil, sem leysir jarðefnaeldsneyti af hólmi. 

Fjallað verður um þetta á ársfundi samorku sem hófst nú klukkan 9 og er í beinni útsendingu á samorka.is.