Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Sveitarfélög segja upp samningum hjúkrunarheimila

08.09.2020 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Mörg hjúkrunarheimili sem rekin eru af sjálfseignarstofnunum og sveitarfélögum eiga í miklum rekstrarerfiðleikum og daggjöld Sjúkratrygginga ríkisins duga hvergi til að ná endum saman.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands tekur við á Akureyri 

Sveitarfélagið Hornafjörður og Akureyrarbær hafa þegar sagt upp samningi sínum við ríkið um rekstur hjúkrunarheimila. Heilbrigðisstofnun Norðurlands, sem er ríkisstofnun, tekur við rekstrinum á Akureyri um áramót. Nokkur önnur sveitarfélög íhuga að gera slíkt hið sama verði ekki breyting á rekstrarforsendum. Hjúkrunarheimilin eru ýmist rekin af sjálfseignarstofnunum, sveitarfélögum eða beint af ríkinu, en fá dagjöld frá Sjúkratryggingum samkvæmt samningi. 

Sveitarfélögin greiða umtalsvert fé

Eybjörg Hauksdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og  Ásgerður Gylfadóttir formaður bæjarráðs Hornafjarðar ræddu stöðu hjúkrunarheimila í Speglinum. Eybjörg segir að daggjöld ríkisins eigi að duga fyrir rekstrinum en reyndin sé sú að sveitarfélögin hafi verið að greiða umtalsverða fjármuni beint og óbeint með rekstri hjúkrunarheimila á landsbyggðinni.

Peningarnir duga ekki 

„Að mínu mati er orsökin sú að rekstrarféð er ekki nægt fyrir hjúkrunarheimilin og sveitarfélögin vilja ekki missa þjónustuna eða þjónustustigið út úr sveitarfélaginu. Þau hafa því verið að greiða með beinum og óbeinum  fjárframlögum, en líka með því að greiða laun og ræstingar t.a.m." segir Eybjörg. 

Orðnir langþreyttir á ástandinu 

Ásgerður segir að verulega hafi farið að halla undan fæti hjá hjúkrunarheimilum í ársbyrjun 2019 þegar samningur Sjúkratrygginga við sveitarfélögin og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu rann út.  

„Þá urðu breytingar. Tenging milli þyngdar hjúkrunar og daggjalda hætti, þannig að rekstrarfé lækkaði á milli ára. Þá byrjaði vandinn. Hækkanir urðu á öllum aðföngum, launum og öðru sem var ekki tekið inn í þessa jöfnu”. Ásgerður segir að Hornfirðingar séu orðnir langþreyttir á þessu ástandi og hafi sagt upp samningi við Sjúkratryggingar.  “Við getum ekki lengur sett inn tugi milljóna króna á ári til þess að reka þessa þjónustu fyrir útsvarsfé, sem ætti að koma frá ríkinu” segir Ásgerður.

Hægt er að hlusta á Spegilinn hér.

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV