Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir marga með mótefni í Stokkhólmi og sýna aðgát

Mynd:  / 
Björn Zoëga, forstjóri Karónlínska sjúkrahússins í Stokkhólmi, telur að kórónuveiran eigi eftir að halda áfram að breiðast út á meðan ónæmi er ekki nógu útbreitt. Smitum hafi fækkað mikið í Svíþjóð á síðustu vikum. Rætt var við Björn í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

„Á meðan það er ekki ónæmi hjá mjög mörgum þá mun þetta breiðast áfram út en það breiðist mismunandi hratt út eftir því hvaða sóttvarnaraðgerðum maður beitir,“ segir Björn. Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. 

Smitum að fækka í Svíþjóð

Björn sagði í viðtalinu að smitum í Svíþjóð væri að fækka frekar en fjölga. Sjúklingar með COVID-19 væru nú innan við 100 á sjúkrahúsum landsins eftir að hafa verið fleiri þúsund þegar mest var. Hann segir að í Stokkhólmi hafi mest verið 1.100 inniliggjandi á sjúkrahúsum borgarinnar, þar af 180 á gjörgæslu. Nú séu 20 sjúklingar með COVID-19 á öllum sex sjúkrahúsunum í Stokkhólmi og mjög fáir dáið á síðustu fjórum vikum. 

Björn segir að ekki hafi orðið vart við aðra bylgju faraldursins í Svíþjóð. „En það munu auðvitað koma upp einhver smit. Það eru orðin það mikið mótefni í Stokkhólmi að það er ekkert létt fyrir veiruna að athafna sig eða komast af stað aftur. Þar að auki er fólk vel meðvitað og fer eftir þeim takmörkunum og reglum að mestu leyti sem eru í gangi þó að unga fólkið eigi stundum erfiðara með að hemja sig.“

Strangari sóttvarnarreglur í Svíþjóð en á Íslandi

Í Svíþjóð er mælt með tveggja metra fjarlægð, skemmtistaðir mega bara hafa opið fyrir sitjandi fólk og samkomufjöldi miðast við 50. „Ég geti ekki annað séð en að þetta sé að mörgu leyti líkt því sem er á Íslandi, og þá kannski í sumum hlutum eilítið strangari miðað við hvernig staðan er núna,“ segir Björn. Nú er eins metra regla almennt í gildi á Íslandi og fjöldatakmarkanir miðast við 200 manns til samanburðar. 

Skólahald á yngstu stigum hélst óbreytt á meðan faraldurinn fór sem hæst en fjarkennsla var á efri skólastigum og í háskólum. Björn segir að skólar hafi opnað á ný með takmörkunum á fjölda í skólastofum. Þá þurfi erlendir stúdentar að fara í veirupróf áður en þeir hefja nám. 

Björn segir að áhrif faraldursins sjáist í almenningssamgöngum. Töluvert sé enn um að fólk vinni heiman frá sér og helmingi færri noti nú strætisvagna og lestir borgarinnar en á sama tíma fyrir ári. 

Brugðust ekki nógu hratt við

Björn segir Svíar hafi talið að sú leið sem þeir fóru í faraldrinum hafi verið sú eina í stöðunni án þess að loka öllu. Kórónuveiran hafi komið svo hratt inn og mögulega hafi ekki verið brugðist nógu snöggt við með því að loka hjúkrunarheimilum. Of mikill tími hafi verið tekinn í að hugsa málið þegar veiran helltist yfir á tveimur til þremur vikum eftir vetrarfrí sem tugir þúsunda Svíar höfðu varið á skíðum á Norður-Ítalíu og Austurríki, þaðan sem smitin bárust um Evrópu. 

Björn segir að þegar dauðsföll í Svíþjóð urðu fleiri en í nágrannalöndunum hafi farið af stað mikil umræða um hvað hefði mátt læra af faraldrinum og hvað hefði mátt gera öðruvísi. Meira sé miðað við Finnland, Noreg og Danmörku en við Ísland. Vísindamenn á spítalanum hafi hins vegar verið áhugasamir um rannsóknir DeCode. Það hafi skipt máli því mikill skortur hafi verið á þekkingu á hegðun veirunnar og hvernig hugsað hafi verið um lokanir á dagheimilum og skólum hjá yngri krökkum. „Þessar rannsóknir voru gerðar á  Íslandi.“

Tíminn eigi eftir að leiða í ljós hvaða leið hafi reynst sú rétta. Líklegast sé einhver millivegurinn bestur. Hann telur faraldurinn þó ekki liðinn hjá með öllu. Útbreiðsla á ónæmi hafi áhrif. „Hér búum við við þann lúxus, segi ég núna, að það séu svo margir með staðfest mótefni að það er eiginlega hæsta hlutfall sem sýnt hefur verið fram á núna í langan tíma. Í Stokkhólmi, ef við berum okkur saman við aðrar borgir, þá held ég að það hljóti að vera afgerandi hluti í því af hverju þetta hefur farið svona hratt yfir og er eiginlega horfið núna í sumar.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV