Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Rekja eitt af hverjum átta dauðsföllum til umhverfisins

epa04736228 (FILE) A file photo dated 02 March 2012 shows steam and fumes emerging from the brown coal-fired power plant Niederaussem operated by RWE near Bergheim, Germany. Global carbon dioxide concentrations surpassed 400 parts per million in March
 Mynd: EPA - EPA FILE
Eitt af hverjum átta dauðsföllum í Evrópu árið 2012 mátti rekja til umhverfisáhrifa, til dæmis mengunar og lítilla vatnsgæða. Þetta kemur fram í skýrslu sem umhverfisstofnun Evrópusambandsins birti í dag. Þar segir að með því að bæta loftgæði hefði mátt koma í veg fyrir fjölda dauðsfalla. Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Nýjustu gögn eru frá árinu 2012 og í skýrslunni segir að þá hafi 630.000 látist innan Evrópusambandsins af völdum umhverfisáhrifa. 400.000 dauðsföll eru rakin til loftmengunar og 12.000 til hljóðmengunar.

Hlutfallslega mátti rekja fæst dauðsföll til umhverfisins hér á Íslandi og í Noregi, eða 9 prósent, en hlutfallslega flest í Bosníu-Hersegóvínu þar sem 27 prósent dauðsfalla mátti rekja til umhverfisáhrifa. Þó kemur fram að dauðsföllum af völdum umhverfisáhrifa hafi fækkað mikið frá árinu 1990 og að vatnsgæði hafi aukist til muna.  

Þá er fjallað um umhverfistengdan ójöfnuð, innan ríkja og milli ríkja, en fátækari hópar eru líklegri til að vera útsettir fyrir mengun. Í skýrslunni segir að „íbúar í Austur-Evrópu og Suðaustur-Evrópu séu bæði fátækari og búi við meiri mengun en aðrar Evrópuþjóðir“. Með skýrslunni fylgir skýrt ákall um að vernda viðkvæma hópa fyrir hættulegum umhverfisáhrifum.