Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Landlæknir: Skjalið var ófullbúið vinnugagn

Úr umfjöllun Kveiks um krabbameinsskimun.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Það er mat landlæknis eftir sameiginlega yfirferð með Sjúkratryggingum Íslands og Krabbameinsfélaginu að engar upplýsingar séu í níu blaðsíðna gagni sem unnið var í desember árið 2017 af greiningardeild Sjúkratrygginga og varðar mælingar og markmið þjónustusamnings við Krabbameinsfélagið sem kalli á viðbrögð heilbrigðisyfirvalda umfram þá skoðun sem þegar er hafin hjá embætti landlæknis.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Embætti landlæknis, en fulltrúar Sjúkratrygginga Íslands, Krabbameinsfélags Íslands og embættis landlæknis funduðu sameiginlega í dag til að fara yfir gagnið.

Í tilkynningunni segir að augljóst sé að umrætt skjal sé ófullbúið vinnugagn sem byggi á gögnum frá Krabbameinsfélaginu og samskiptum starfsmanna þess og Sjúkratrygginga. Þar megi finna misskilning og ranga hugtakanotkun.

Skjalið var sent velferðarráðuneytinu í febrúar 2018 án þess að fram kæmi að um vinnugagn væri að ræða en skjalið hafði ekki verið sent KÍ til yfirlestrar áður en því var komið til ráðuneytisins. Aðilar eru sammála um að óábyrgt væri að birta skjalið án nánari skýringa og athugasemda af hálfu Krabbameinsfélagsins.

Undir tilkynninguna skrifa Alma D. Möller landlæknir, María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands og Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands.

Skjalið hefur verið talsvert til umfjöllunar eftir Kastljósþátt síðastliðinn fimmtudag þar sem Tryggvi Björn Stefánsson skurðlæknir og fulltrúi Sjúkratrygginga Íslands sagði að gæðaeftirlit Krabbameinsfélags Íslands hefði verið í lamasessi. Í kjölfarið sendi Krabbameinsfélagið frá sér tilkynningu um að Leitarstöðin væri óstarfhæf vegna þessara ummæla.