Kynnisferðir fengu hátt í 200 milljónir í stuðning

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kynnisferðir eru í hópi þeirra fyrirtækja sem fengið hafa mestan stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Fyrirtækið er í eigu föðurfjölskyldu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem lagði fram frumvarpið um niðurgreiðslu uppsagnakostnaðar sem samþykkt var á Alþingi 29. maí síðastliðinn.

Haft var eftir Birni Ragnarssyni, framkvæmdastjóra Kynnisferða á vef RÚV í lok apríl að með uppsagnastyrkjunum væri í raun komið í veg fyrir gjaldþrot Kynnisferða. Kynnisferðir er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins sem orðið hefur fyrir verulegu fjárhagstjóni vegna heimsfaraldursins. 

Ferðaskrifstofa Kynnisferða fær rúmar 92 milljónir í stuðning vegna uppsagnar 55 launamanna, Hópbifreiðar Kynnisferða fá 58,4 milljónir vegna uppsagna 52 launamanna og Bílaleiga Kynnisferða fær 35,2 milljónir vegna uppsagnar 25 launamanna. Kynnisferðir fengu samtals um það bil 186 milljónir króna vegna uppsagna 132 launamanna. Aðeins fimm fyrirtæki fengu meiri stuðning vegna uppsagna en Kynnisferðir.

Listi yfir fyrirtækin sem fengu stuðning var birtur í gær

Skatturinn greiddi rétt tæpa 8 milljarða króna í stuðning til fyrirtækja vegna hluta launakostnaðar í uppsagnarfresti í maí, júní og júlí. Stuðningurinn er veittur samkvæmt lögum um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, en þau voru kynnt sem hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að stemma stigu við efnahagslegum afleiðingum COVID-19 faraldursins hér á landi í lok apríl.  

Í gær var birtur listi yfir þau 272 fyrirtæki sem hafa fengið stuðning. Fréttastofa greindi frá því í gær að Icelandair hefði fengið rúman þriðjung stuðningsins eða tæpa 2,9 milljarða króna vegna greiðslu launa 1889 starfsmanna. Stuðningur til flugfélagsins nemur rúmum þriðjungi heildarstuðningsins.

Flugleiðahótel hf., sem er að hluta til í eigu Icelandair Group, fékk næstmestan stuðning; rúmlega 450 milljónir króna fyrir greiðslu launa 480 starfsmanna. Þá fékk Íslandshótel hf. rúmlega 435 milljónir og Bláa lónið hf. rúmar 425 milljónir króna. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi