Í gini ljónsins – dómari á jaðri vestrænna mannréttinda

Mynd: EPA / EPA

Í gini ljónsins – dómari á jaðri vestrænna mannréttinda

08.09.2020 - 17:25

Höfundar

„En það er ekki í boði að skáka í skjóli ástandsins þar, klappa sjálfum sér á bakið fyrir að vera ekki eins og Tyrkland og útiloka landið síðan í alþjóðlegu samstarfi,“ segir Halldór Armand Ásgeirsson um heimsókn Róberts Spanó til Tyrklands þar sem hann þáði heiðursdoktorsnafnbót frá háskólanum í Istanbúl.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Ég sat í skólastofu í Háskóla Íslands klukkan rétt rúmlega átta á föstudagsmorgni. Það hafði verið kalt að bíða eftir strætó um morguninn, haustið var komið, og núna sat ég þarna aftarlega í rýminu, sötraði kaffi og nuddaði síðustu stírurnar úr augunum. Við vorum svona 20 þarna inni, öll meistaranemar í lögfræði, og þetta var fyrsti tíminn í kúrsinum Lögskýringar, eða það sem einnig er kallað túlkun lagaákvæða. Dyrnar voru opnaðar og inn æddi snyrtilegur, alskeggjaður maður með tösku og blístraði meðan hann klæddi sig úr jakkanum. Hann leit alls ekki út fyrir að vera nývaknaður. „Það er eitt sem ég ætla að segja við ykkur hérna strax í byrjun,“ sagði hann skyndilega og leit alvarlegur á svip til okkar. „Ef þið ætlið ekki að mæta í alla tíma þá eigið þið ekkert erindi í þennan kúrs. Ef þið ætlið ekki að lesa efnið heima og mæta vel undirbúin, þá getið þið alveg sleppt því að mæta í næsta tíma. Þið hafið ennþá viku til þess að skrá ykkur úr þessum kúrs og í einhvern annan og ég hvet ykkur eindregið til þess ef þið ætlið ekki að sinna þessu vel frá fyrsta degi.“ Þetta var í fyrsta og eina skiptið á háskólagöngu minni þar sem prófessor hvatti nemendur til þess að skrá sig úr námskeiði. Auk þess var þetta eini kúrsinn í meistaranáminu þar sem var ekki 10 mínútuna munnlegt lokapróf heldur þriggja tíma skriflegur andskoti.

Mér fannst þetta í senn fersk og ógnvekjandi byrjun og ég mætti undirbúinn í næsta tíma ásamt þeim circa sjö öðrum sem ekki höfðu skráð sig úr kúrsinum. Þetta var svo auðvitað bæði besti og erfiðasti kúrsinn sem ég tók í náminu. Prófessorinn grillaði okkur miskunnarlaust um hálögfræðileg álitamál og spurningar en að sama skapi var hann sanngjarn, líflegur, metnaðarfullur fyrir okkar hönd og gjörsamlega framúrskarandi kennari, algjörlega brilljant hugsuður. Og ég elskaði þetta, ég bara dýrkaði þetta allt saman, þetta var svona eins og ég hafði ímyndað mér að nám við Oxford eða Harvard væri, en á sama tíma varð ég að viðurkenna að ég átti erfitt uppdráttar, ég þurfti að hafa mig allan við til þess að fylgja umræðunum, satt best að segja var þetta kúrsinn þar sem ég þurfti að horfast í augu við það að ég hafði ofmetið hressilega mína eigin getu á þessu sviði. Ég stóð ítrekað á gati frammi fyrir kröfuhörðu augnaráði prófessorsins, og þurfti að leita ásjár samemenda minna sem drógu mig að landi. Já, ég elskaði þessa tíma, en um miðja önnina vissi ég að þetta yrði tæpt, ég væri í besta falli að fara að rétt slefa yfir sexuna sem þurfti til að ná. 

Ingbjörg Sólrún og Enes Kanter á sama máli

Og hver var þessi eftirminnilegi prófessor? Jú, þetta var vitaskuld Róbert Spanó, núverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, maðurinn sem bæði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Enes Kanter, miðherji Boston Celtics í NBA-deildinni, telja að eigi að skammast sín og jafnvel segja af sér fyrir að hafa farið í opinbera heimsókn til Tyrklands og þiggja þar heiðursnafnbót við háskóla. Ástæðan er sú að frammistaða Tyrkja í mannréttindamálum er vægast sagt ekki góð. Þar hafa farið fram miklar pólitískar hreinsanir í dómskerfinu, blaðamenn og aktívistar eru þar fangelsaðir fyrir engar sakir, tjáningarfrelsi er skert og svona mætti lengi áfram telja. Erdogan forseti er ekkert sérstaklega huggulegt eintak af mannkyninu og mörgum þykir Róbert hafa flekkað ásýnd Mannréttindadómstólsins með því að sækja karlinn heim og þiggja orður frá fræðimannasamfélaginu þar í landi, þar sem akademískt frelsi er haft að engu. 

Sjálfur bjó ég fyrir ekki svo löngu með þýsk-pólskri stelpu í Berlín, sem var að skrifa doktorsritgerð í félagsfræði um Tyrkland, hafði búið þar lengi og heimsótti landið oft. Kærastinn hennar var líka ungur lögfræðingur og aktívisti í Istanbúl og þau ferðuðust á milli í heimsóknir til hvor annars. Ég hlustaði oft á hana gráta hinum megin við vegginn í þögn næturinnar vegna þess að hún óttaðist svo um örlög hans.

Persónulegt hryllingsmat dómforsetans

En átti Róbert ekki að heimsækja Tyrkland sem forseti Mannréttindadómstólsins? Rýrir það orðspor dómstólsins ef forseti hans heimsækir eitt af aðildarríkjunum? Eftir því sem ég kemst næst heimsækja forsetar dómstólsins öll aðildarríki Evrópuráðsins reglulega. En mér, sem stend fyrir utan þennan diplómatíska leikvöll og þekki ekki reglur hans nákvæmlega, finnst kannski spurningin frekar vera hvort forseti Mannréttindadómstóls Evrópu eigi að gera upp á milli aðildarríkja hvort þau eigi það skilið að hann heimsæki þau og þiggi þar orður. Hefði einhver sagt eitthvað ef Róbert hefði heimsótt Danmörku heim og haldið þar ræðu í Kaupmannahafnarháskóla? Auðvitað ekki. Það sama gildir um Ísland og Háskóla Íslands. Samt eiga mannréttindi alveg undir högg að sækja hér eins og annars staðar. 

Það er ekki langt síðan dómsmálaráðherra Íslands þurfti að segja af sér vegna þess að dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði brotið gegn ákvæðum sáttmálans með embættisgjörðum sínum við skipun dómara. Sami ráðherra hefur jafnframt varað við útþenslu dómstólsins. Á Íslandi er ekki jafnt vægi atkvæða í kosningum og þetta misvægi fer augljóslega í bága við þau grundvallarmannréttindi sem felast í jafnræðisreglunni. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hefur ítrekað gert athugasemdir við þessi augljósu mannréttindabrot íslenskra stjórnvalda. Hér á landi var haldin þjóðatkvæðagreiðsla árið 2012 um nýja stjórnarskrá, en þrátt fyrir að hún hafi verið samþykkt, þá hafa niðurstöður atkvæðagreiðslunnar aldrei komið til framkvæmda. Nýja stjórnarskráin hvarf hreinlega og ég veit ekki betur en að slík vanvirðing gagnvart mannréttindum og lýðræði sé algjörlega einstök í okkar heimshluta. Hvað myndi maður hugsa ef maður læsi frétt á ensku um slíkan atburð í öðru landi? Stjórnvöld hunsa þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvaða ályktanir myndi maður draga um stjórnvöld þar?

Átti forsetinn að kasta inn diplómatískri handsprengju?

Hér er ég vitaskuld ekki að líkja ástandi mannréttinda á Íslandi við það sem gerst hefur í Tyrklandi undanfarin ár. Hér er ekki verið að fangelsa blaðamenn og reka háskólakennara fyrir engar sakir. Hins vegar er fásinna að láta eins og Tyrkland sé eina aðildarríki dómstólsins sem virðir ekki mannréttindi. Við þurfum ekki annað að horfa út í okkar eigin garð til þess að sjá að mannréttindi eru hér um bil alls staðar þyrnir í augum stjórnvalda. Spurningin er þá aftur: Er það hlutverk forseta Mannréttindadómstóls Evrópu að meta það persónulega í hvert skipti fyrir sig hvort aðildarríkin eigi skilið að fá sig í opinbera heimsókn? Er það hans að meta það persónulega hvort mannréttindabrot hvers ríkis fyrir sig séu nógu alvarleg til þess að hann eigi ekki að draga fram ferðatöskuna þegar kemur að næstu opinberu heimsókn?

Er það virkilega hans, í diplómatísku hlutverki sínu sem forseti stofnunarinnar, að gera upp á milli aðildarríkjanna? Það kann að vera að staða mannréttinda í Tyrklandi sé einstaklega slæm, en það breytir því ekki að forseti MDE verður að vera hlutlaus og gæta jafnræðis gagnvart aðildarríkjum sínum þegar kemur að diplómasíu. Og hvaða skilaboð hefðu falist í því að mæta ekki í heimsóknina, hafna því í fyrsta skipti að vera í samskiptum við stjórnvöld í aðildarríki dómstólsins og fara þannig í bága við áralanga hefð? Hefði forseti dómstólsins þá ekki óbeint verið að segja að Tyrkland eigi í raun ekki að hafa aðild að dómstólnum að hans mati. Hvers konar diplómatíska handsprengja hefði það verið?

Framandleikinn sem skálkaskjól

Og getur verið að þessi ofsafengnu viðbrögð við heimsókninni séu viss tegund af Other-isma, það er að segja, að láta eins og það sé sjálfsagt mál að forseti Mannréttindadómstóls Evrópu útiloki og framandgeri Tyrkland í diplómatískum störfum sínum vegna þess að landið sé svo öðruvísi, hafi alltaf verið ljóti andarunginn í Evrópuráðinu og kunni ekki að haga sér rétt eins og til dæmis fyrirmyndarríkin í Norðri gera … sem þau samt, gera alls ekkert alltaf.

Ég er ekki að bera blak af tyrkneskum stjórnvöldum. Mér kæmi það aldrei til hugar. Ástandið þar er skelfilegt og Erdogan er fúlmenni. Ég heyri ennþá snöktið hinum megin við vegginn í nóttinni. En það er ekki í boði að skáka í skjóli ástandsins þar, klappa sjálfum sér á bakið fyrir að vera ekki eins og Tyrkland og útiloka landið síðan í alþjóðlegu samstarfi. Í fyrsta lagi væri það alls ekki í anda hins merka sáttmála sem hvílir í bakgrunni þessa máls og í öðru lagi væri það heldur ekki gáfuleg nálgun. Ef þú vilt breyta hegðun einhvers til hins betra eða reyna að hafa áhrif á heimsmynd hans, þá er ekki viturlegt að hunsa hann eða útiloka. Við hunsum það sem okkur er sama um, en við feisum það sem skiptir okkur máli. Hvort hefði verið betra fyrir framtíð grundvallarréttinda almennings í Tyrklandi að Róbert Spanó mætti og héldi þar ræðu um mikilvægi tjáningarfrelsis og frelsi fræðimanna, eins og hann kaus að gera, eða að hann hefði hunsað boðið og ekki mætt? Ég þykist ekki vita svarið, ég veit ekkert um alþjóðlega diplómasíu, þetta hefur ekki verið auðveld ákvörðun og það getur ekki verið gaman fyrir nokkurn heilvita mann að taka í spaðann á Erdogan. En ég held samt að fyrir fólkið í landinu, fyrir frelsið og framtíð grundvallarréttinda, þá sé betra að hann hafi kyngt gallinu og mætt, frekar en að láta eins og Tyrkland sé ekki á heimskortinu.

Tengdar fréttir

Innlent

Þórhildur Sunna: Tyrklandsheimsókn Róberts réttlætanleg

Innlent

NBA-stjarna og landflótta auðkýfingur gagnrýna Róbert

Innlent

Ingibjörg Sólrún snuprar Róbert vegna heiðursnafnbótar

Evrópa

Gagnrýndur fyrir að taka við heiðursdoktorsnafnbót