Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hörð viðbrögð vegna lokunar fangelsis

default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Bæjarstjórinn á Akureyri segir það mikil vonbrigði að fangelsinu þar verði lokað. Formaður Samfylkingarinnar segir að það þurfi að ræða málið betur, það sé ömurlegt að dómsmálaráðherra skuli taka slíkar ákvarðanir þegar þing sé ekki að störfum.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, tilkynnti um lokunina í júlí. Með henni átti að nýta betur það fjármagn sem fer í rekstur fangelsa en það kostar um 100 milljónir á ári að reka fangelsið á Akureyri. Lokunin var harðlega gagnrýnd. Ráðherra frestaði henni þá til 15. september og óskaði eftir því að lagt yrði mat á viðbótarkostnað lögreglunnar þar sem lögreglan hefur nýtt sér þjónustu fangavarða í áranna rás.

Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu í gær kom fram að embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra verði styrkt um fjórar stöður lögreglumanna til að sinna almennri löggæslu, með sextíu milljóna króna aukafjárveitingu á ári. Hús fangelsisins verði endurnýjað og því breytt til að mæta vaxandi húsnæðisþörf lögreglunnar en tryggt verður að lögreglan geti nýtt sér úrræði til gæsluvarðhaldsvistar þegar þörf krefur.

Telja styrkingu lögreglunnar eðlilega fjölgun

Fangelsinu verður lokað í næstu viku og sex starfsmenn þess missa vinnuna. Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar segir lokunina mikil vonbrigði. „Við erum náttúrulega ákaflega ánægð með að það hafi verið tekin ákvörðun um það að fjölga lögreglumönnum en við hefðum nú talið að það væri eðlileg fjölgun. Við hefðum að sjálfsögðu vilja halda fangelsinu áfram hér fyrir norðan,“ segir Ásthildur. Næstu skref hjá verði rædd á bæjarráðsfundi á fimmtudag.

Var fullviss um að það yrði fallið frá þessari lokun

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi, hefur óskað eftir fundi í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis vegna lokunarinnar. Ólíðandi sé að slík ákvörðun sé tekin án umræðu á Alþingi. Lokunin sé stórt landsbyggðarmál þar sem störf tapist af Norðurlandinu á Suðvesturhornið. Einnig sé þetta réttindamál fyrir fanga sem kjósi að afplána nær fjölskyldum sínum og fanga sem kjósi að afplána sína dóma lengra frá.

Það hefur staðið til að loka fangelsinu síðan í sumar. Hvers vegna óskar Anna Kolbrún eftir fundi nú? „Þegar að við hittumst, þingmannahópurinn í Norðurausturkjördæmi, þegar átti að loka, þá taldi ég einsýnt að það yrði fallið frá þessu vegna þess að mér fannst allir þingmenn kjördæmisins, nota bene með nokkra í ríkisstjórnarflokkum, tala það hart á móti lokuninni að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur.“ Auk þess hafi verið talað um að þetta þyrfti að fara í gegnum Alþingi og það þyrfti að ræða hvaðan auka fjármagn ætti að koma áður en ákvörðun væri tekin. „Ég var algjörlega róleg og trúði ekki og treysti hreinlega að þetta yrði ekki að veruleika,“ segir hún. Hún fái með engu móti fá skilið hvernig þetta séu hagsmunir fangelsiskerfisins. 

Hlutur sem þarf að ræða miklu betur

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, segir fregnirnar hörmulegar. „Mér finnst reyndar ömurlegt að ráðherra skuli nota tækifærið í tvígang þegar þing er ekki að störfum til þess að tilkynna svona hlut sem þarf að ræða miklu betur,“ segir Logi.

Ráðherra skýli sér á bak við það að samhliða þessu eigi að efla löggæslustarf en það þurfi að efla löggæslu í þessu umdæmi og um allt land, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, burtséð frá fangelsismálum. „Mér finnst það líka skjóta skökku við þegar að fangelsismálastjóri og ráðherra tala svona fallega um tilgang fangelsisúrræðisins, að það eigi að vera betrunarúrræði en ekki refsiúrræði, að það skuli ekki vera horft í neitt annað en peningahliðina,“ segir Logi.