Rafael Correa, fyrrverandi forseti Ekvador. Mynd: EPA-EFE - EFE
Átta ára fangelsisdómur yfir Rafael Correa fyrrverandi forseta Ekvador var staðfestur í dag.
Correa var dæmdur fyrir spillingu og að hafa tekið við mútum úr höndum stórfyrirtækja.
Dómurinn kemur í veg fyrir að Correa, sem var forseti Ekvador frá 2007 til 2017, geti gefið kost á sér til embættis varaforseta landsins á næsta ári. Hann fullyrðir að dómurinn sé þáttur í pólítískum ofsóknum gegn honum.
Forsetinn fyrrverandi hefur hafst við í Belgíu frá 2017. Hann er eftirlýstur fyrir að hafa staðið baki því að andstæðingi hans á þingi var rænt árið 2012. Ekki er hægt að rétta yfir honum fjarstöddum vegna þess máls.