Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fá erlendan aðila til að taka út skoðun leghálssýna

08.09.2020 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Embætti Landlæknis ætlar að fá erlendan aðila til að taka út endurskoðun leghálssýna hjá Krabbameinsfélagi Íslands og hvort gæði skimunar hjá félaginu sé fullnægjandi. Verið er að endurskoða sex þúsund sýni og meira en fimmtíu konur eru með frumubreytingar sem ekki greindust fyrir mistök.

Hófu endurskoðun sýna í júlí

Starfsemi Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins hefur verið til athugunar hjá Embætti Landlæknis eftir að í ljós kom um mitt sumar að alvarleg mistök hefðu verið gerð við skoðun á leghálssýni árið 2018, þannig að krabbamein í konu á fimmtugsaldri greindist ekki. Það er nú ólæknandi. 

Verið er að yfirfara sex þúsund sýni og meira en fimmtíu konur verið kallaðir inn til frekari skoðunar. Að sögn Krabbameinsfélagsins hafa þær verið með vægar frumubreytingar en engin þeirra með krabbamein. Fyrst var greint frá mistökunum í fréttum Stöðvar tvö í lok ágúst en endurskoðun sýnanna hófst í júlí. 

Landlæknir ekki fengið neinar ábendingar um að eftirliti væri ábótavant

Í skriflegu svari frá Landlækni til fréttastofu segir að tilkynnt hafi verið um eitt alvarlegt atvik og ein kvörtun borist, sem við fyrstu sýni virðist ekki af sama meiði. Þá hefur embættið haft spurnir af því að önnur kvörtun sé í farvatninu.

Landlæknisembættið hefur gæðaeftirlit Krabbameinsfélagsins til skoðunar en segist ekki hafa haft ástæðu til að ætla að því hafi verið ábótavant. Engar ábendingar þar að lútandi hafi borist embættinu. Embættið segist ekki hafa komið að gerð kröfulýsingar sem var til grundvallar þjónustusamningi Sjúkratrygginga við Krabbameinsfélagið, en hefur kallað eftir þeim gögnum. Síðdegis í gær barst gagn frá Sjúkratryggingum sem eftir á að rýna.

Segja ekki til um hver ber ábyrgð á meðan rannsókn stendur

Á þessari stundu sé brýnast að tryggja að sýni verði yfirfarin og að þær konur sem mögulega hafa orðið fyrir skaða fái þá aðstoð og stuðning sem þær þurfa. Unnið sé að því að fá aðila að utan til að ganga úr skugga um að skoðun sýna sé fullnægjandi að gæðum.

Á meðan rannsókn stendur segist Landlæknisembættið ekki geta metið hver beri ábyrgð á því að allt að 150 konur hafi fengið ranga greiningu á leghálssýni.