Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Erlendir blaðamenn án passa í Kína

08.09.2020 - 05:44
epa08652219 Chinese and USA flag are seen among others in SMIC factory in Shanghai, China, 07 September 2020. SMIC (Semiconductor Manufacturing International Corporation), Chinese chip maker corporation, became the target of export restrictions by USA according to US Defence Department officials.  EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkjastjórn ásakar Kínverja um að „hóta“ og „hrella“ erlenda blaðamenn. Kínverjar hafna að endurnýja blaðamannaskilríki allmargra starfsmanna bandarískra fréttaveitna. Sömuleiðis neita þeir að yfirfara nýjar vegabréfaáritanir blaðamanna sem vísað var úr landi fyrr á árinu.

Erlendum fréttariturum ber að hafa gild skilríki til að mega búa og vinna í Kína. Allmargir þeirra bera bráðabirgðaskilríki sem Félag erlendra fréttaritara í Kína (FCCC) fullyrðir að hægt sé að afturkalla án fyrirvara.

Talskona bandaríska utanríkisráðuneytisins segir að rekja megi slíka framkomu kínverskra yfirvalda aftur um áratugi. Bandarísk stjórnvöld segjast hafa unnið að kappi við að sannfæra Kínverja um að hleypa fréttamönnum aftur inn í landið.

Erlendum fréttaveitum með aðstöðu í Kína hefur fækkað smám saman undanfarin misseri og ár. Í frásögn AFP fréttastofunnar af málinu eru CNN, The Wall Street Journal og Bloomberg nefnd. Búist er við að hið sama bíði fleiri veita á næstunni.

FCCC staðfestir að fimm blaðamenn og fjórum fjölmiðlasamstæðum hafi nýverið verið hafnað um blaðamannaskírteini. Aldrei hefur fleiri erlendum fréttamönnum verið vísað frá Kína en fyrstu sex mánuði ársins eða 17 alls.

Kínversk stjórnvöld segja ákvarðanir sínar vera andsvar við framferði Bandaríkjastjórnar sem hafi stytt þann tíma sem kínverskir blaðamenn mega dvelja þar niður í níutíu daga.