Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Berfætt, náttfataklædd og í annarlegu ástandi

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglan á Vestfjörðum reyndi að aðstoða unga konu sem var á gangi á Ísafirði á þriðjudag í síðustu viku. Hún var berfætt og náttfataklædd. Samkvæmt lögreglu virtist hún í annarlegu ástandi og illa áttuð svo erfitt reyndist að komast að dvalarstað hennar eða áformum. Til að tryggja öryggi hennar var hún færð í fangaklefa og látin sofa úr sér vímuna. Henni var ekið til síns heima daginn eftir, þegar hún gat upplýst um hvar það var.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Vestfjörðum.

Birtist á svölum nágranna síns

Á miðvikudagskvöld hafði lögreglan þá afskipti af manni sem birtist á svölum nágranna síns á Ísafirði. Hann sagðist læstur úti og þyrfti að komast heim til sín. Hann reyndist í annarlegu ástandi og veittist að gestkomandi á sama heimili þegar hann var beðinn um að fara aftur í sína íbúð. Maðurinn hlýddi ekki fyrirmælum lögreglu og hrækti í átt að lögreglumanni. Hann var vistaður í fangaklefa þá nótt. Síðar í vikunni hafði lögregla aftur afskipti af honum vegna áreitis við nágranna sína.

Áflog á Bíldudal

Til ryskinga kom á milli nokkurra aðila á Bíldudal á föstudag. Einhverjir hlutu áverka og var kallað eftir sjúkrabíl vegna þess. Eftir átökin dró einn aðilinn upp hníf. Hann var handtekinn í kjölfarið og vistaður í fangaklefa. Samkvæmt lögreglu er atvikið til rannsóknar.

Ók fram af árbakka

Á laugardag slasaðist þá ung stúlka á höfði eftir að hafa ekið fjórhjóli fram af árbakka. Hún var flutt á slysadeild í Fossvogi vegna áverka sinna, en reyndist óbrotin. Maður sem var með henni á fjórhjóli skrámaðist og hlaut mar en meiddist ekki að öðru leyti.