Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Átta dæmd fyrir morðið á Khashoggi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Átta hafa verið dæmd til sjö til tuttugu ára fangelsisvistar fyrir morðið á sádí-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi árið 2018.

Dómur þess efnis var kveðinn upp í Sádí-Arabíu í dag fjórum mánuðum eftir að fjölskylda Khashoggis kvaðst fyrirgefa morðingjum hans.

Komust undan dauðarefsingu

Þess vegna sluppu hin ákærðu við dauðarefsingu, líkt og íslömsk lög leyfa en í desember síðastliðnum voru fimm dæmd til dauða. Þá var niðurstaðan sú að morðið hefði verið framið í stundarbrjálæði.

Nú hefur dauðadómnum verið hnekkt. Ekkert þeirra dæmdu hefur verið nafngreint.

Niðurstaðan gagnrýnd

Sameinuðu þjóðirnar og mannréttindafrömuðir hafa gagnrýnt réttarhöldin, að lög og réttur sé hafður í flimtingum og fullyrða að höfuðpaurarnir gangi enn lausir.

Spurt er hvernig hægt sé að samþykkja að valdhafi grunaður um morð, rétti í því sama máli.

Dauði Khashoggis

Khashoggi var mjög gagnrýninn á stjórnvöld Sádí Arabíu, einkum beindi hann spjótum sínum að ríkisarfanum Mohammed Bin Salman.

Seinast sást Khashoggi á lífi þegar hann gekk inn í sendiráð Sádí Arabíu í Istanbúl. Að sögn var erindi Khashoggis að sækja nauðsynleg skjöl vegna fyrirhugaðrar giftingar hans.

Lík hans á að hafa verið sundurlimað og komið fyrir á enn óþekktum stað. Morðið olli alþjóðlegu uppnámi og sverti umbótasinnaða ímynd Mohammeds prins.

Höfuðpaurar taldir ganga lausir

Hatice Cengiz eftirlifandi unnusta Khashoggis segir heilann á bakvið morðið enn ganga lausan. „Yfirvöld í Sádí Arabíu ljúka málinu án þess að heimurinn komist að hinu sanna," segir hún í yfirlýsingu.

Hún spyr hvar lík Khashoggis sé að finna, hver hafi skipulagt morðið og fyrirskipað það. Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna kallar eftir því sama.

Leyniþjónusta Bandaríkjanna CIA er þeirrar skoðunar að Mohammed prins hafi fyrirskipað morðið. Nokkrar ríkisstjórnir á Vesturlöndum eru sama sinnis og talskona Sameinuðu þjóðanna segir ábyrgð prinsins ekki hafa verið ígrundaða nægilega.

Sádí Arabar þvertaka fyrir nokkra ábyrgð en í september í fyrra viðurkenndi prinsinn morðið hafa verið framið á hans vakt.

Tyrknesk yfirvöld hvetja þau sádíarabísku til samvinnu við frekari rannsókn á málinu, öll kurl séu ekki komin til grafar.