58% færri gistinætur en þreföldun hjá Íslendingum

08.09.2020 - 09:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ætla má að 58% samdráttur hafi orðið á fjölda gistinótta á hótelum í ágúst miðað við árið í fyrra. Íslendingum fjölgaði mikið, en gistinætur erlendra ferðamanna drógust saman.

Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum frá Hagstofunni sem gefnar voru út í morgun. Venjulega eru tölur um gistinætur gefnar út 30 dögum eftir að mánuði líkur, en með því að greina tölur frá þeim hótelum sem skila tölum sínum strax var hægt að áætla rúmanýtingu og fjölda gistinátta með 95% öryggismörkum, segir í fyrirvara Hagstofunnar. 

Miðað við það er gert ráð fyrir að gistinætur á hótelum í ágúst hafi verið um 221 þúsund talsins. Gistinætur Íslendinga hafi verið 121 þúsund en gistinætur útlendinga um 100 þúsund. Miðað við 522.900 gistinætur í ágúst í fyrra, má ætla að samdrátturinn nemi um 58% milli ára.

Samhliða því má sjá gríðarlega breytingu, þar sem búist er við að gistinætur Íslendinga hafi ríflega þrefaldast frá ágúst í fyrra, en gistinætur útlendinga dregist saman um í kringum 79%.

Samkvæmt þessu var rúmanýting í ágúst í ár um 43% en var 71,5% í sama mánuði í fyrra.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi