Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

53 alvarleg atvik skráð í heilbrigðisþjónustu í fyrra

08.09.2020 - 06:01
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Alls voru yfir tíu þúsund óvænt atvik skráð í íslenskri heilbrigðisþjónustu í fyrra, lítið eitt fleiri en árið á undan. 53 þeirra voru alvarleg. Þetta kemur fram í ársskýrslu Embættis landlæknis. Óvænt atvik er notað yfir óhappatilvik, mistök, vanrækslu eða önnur atvik sem valdið hafa sjúklingi tjóni eða hefðu getað valdið sjúklingi tjóni.

Byltur eða fall var algengasta skráða óvænta atvikið á heilbrigðisstofnunum á landinu öllu í fyrra, alls 5.260 talsins eða tæpur helmingur atvika. Önnur algeng skráð atvik tengdust lyfjameðferð, eða samtals 1.442 á landsvísu. 

Landlæknir rannsakar öll slík tilkynnt alvarleg atvik með það að markmiði að draga af þeim lærdóm, leita úrbóta og tryggja að þau gerist ekki aftur, segir í ársskýrslunni

Þar segir jafnframt að skráðum alvarlegum óvæntum atvikum hafi fjölgað stöðugt síðustu ár. Þau hafi verið 53 í fyrra en 45 árið 2018. Í ársskýrslunni er talið líklegtra að fjölgunin skýrist frekar af bættri skráningu vegna vitundarvakningar en ekki raunaukningu á óvæntum alvarlegum atvikum. 

Yfir 300 kvartanir til landlæknis

323 erindi bárust embætti landlæknis á árinu 2019 þar sem kvartað var undan samskiptum við heilbrigðisstarfsmenn eða undan heilbrigðisþjónustu. Það er níu færri en í fyrra en 50 fleiri en á árinu 2017. 

Þar kemur fram að notendum heilbrigðisþjónustu sé heimilt að beina formlegri kvörtun til landlæknis ef þeir telja sig eða  fjölskyldumeðlim hafa orðið fyrir vanrækslu, mistökum eða ótilhlýðilegri framkomu af hálfu þeirra sem þjónustuna veita.

Svið eftirlits og gæða heilbrigðisþjónustu hjá embættinu afgreiði einnig erindi um samskipti notenda við veitendur þjónustunnar eða aðrar athugasemdir sem ekki eru skilgreind sem formlegar kvartanir. 
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV