Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Til skammar að vera ekki búin að semja“

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Kjaradeila um 600 félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness og Norðuráls á Grundartanga er í hnút. Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður félagsins. Hann segir að Norðurál bjóði kjör undir Lífskjarasamningnum, ekki komi til greina að samþykkja það.

Samningarnir hafa verið lausir í níu mánuði, deilunni var vísað til ríkissáttasemjara í maí og í júlí var kosið um yfirvinnubann 1. desember. Það var samþykkt með um 97% atkvæða. Vilhjálmur segir að farið sé fram á hækkanir í takt við Lífskjarasamninginn.

„Og því hefur bara verið hafnað. Það er ekkert flóknara en það. Þeir vilja meina að launasamsetningin hjá Norðuráli sé með þeim hætti að upphæðin verði hærri en það bara stenst ekki. Okkar kröfur eru bara nákvæmlega eins og kveðið er á um í Lífskjarasamningnum,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir að nú hafi Verkalýðsfélag Akraness gert lokatilboð og frá því verði ekki kvikað. Rekstur Norðuráls gangi vel og fyrirtækið ráði vel við að greiða starfsmönnum sínum laun í samræmi við Lífskjarasamninginn. Næsti fundur er boðaður 16. september og hann segist vonast til að ekki komi til vinnustöðvunarinnar

„Enda held ég að mönnum verði að bera gæfa til þess að klára þessa deilu og semja sem allra allra fyrst. Það eru liðnir níu mánuðir síðan kjarasamningar runnu út og það er í mínum huga algjörlega til skammar að menn séu ekki búnir að ganga frá kjarasamningi á þessum grunni,“ segir Vilhjálmur.